Á miðnætti aðfaranótt 4. maí tóku gildi nýjar reglur heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum. Fjöldamörk hafa verið hækkuð úr 20 í 50 manns, takmarkanir á fjölda nemenda í leik- og grunnskólum hafa verið felldar niður og sömuleiðis vegna íþróttaiðkunar og æskulýðsstarfs barna á leik- og grunnskólaaldri. Framhalds- og háskólar hafa verið opnaðir á ný og ýmsir þjónustuveitendur opnuðu í morgun dyr sínar fyrir viðskiptavinum. Áfram gildir reglan um tveggja metra nálægðartakmörk hjá fullorðnum og gæta þarf að hreinlæti og sóttvörnum líkt og áður.
Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar með þeim reglum sem nú hafa tekið gildi er meðfylgjandi og á vefnum Covid.is má sjá spurningar og svör um framkvæmd þeirra. Í dag voru einnig afnumdar takmarkanir á heilbrigðisþjónustu, m.a. varðandi valkvæðar skurðaðgerðir og ífarandi rannsóknir.