Alvarlegt umferðarslys
Einn er látinn og níu voru fluttir á slysadeild Landspítalans eftir harðan árekstur við Saltvík á Vesturlandsvegi á áttunda tímanum í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Fjórir eru á gjörgæsludeild, alvarlega slasaðir en fimm eru á almennri deild.
Tilkynning frá Lögreglu til fjölmiðla : Einn lést og níu slösuðust í hörðum árekstri tveggja bíla á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, skammt frá Enni, á áttunda tímanum í kvöld. Lögreglunni barst tilkynning um slysið klukkan 19.23, en bílarnir voru að koma úr gagnstæðri átt. Hinir slösuðu voru allir fluttir með sjúkrabifreiðum á slysadeild Landspítalans, en ekki er hægt að greina frá líðan þeirra að svo stöddu. Vinnu á vettvangi er lokið og hefur Vesturlandsvegur verið opnaður á nýjan leik, en honum var lokað á milli Þingvallavegar og Hvalfjarðarvegar í kjölfar slyssins og var hjáleið um Kjósarskarðsveg.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka slysið.
Fréttin hefur verið uppfærð kl. 22.40
Alvarlegt umferðarslys – Níu eru slasaðir
Vesturlandsvegur er lokaður frá Þingvallavegi og að Hvalfjarðarvegi vegna alvarlegs umferðarslyss skammt frá Enni á Kjalarnesi. Hjáleið er um Kjósarskarðsveg. Búist er við að vegurinn verði lokaður í nokkurn tíma og mikil bílaröð hefur myndast frá Vesturlandi í átt til höfuðborgarsvæðisins.
Níu eru slasaðir eftir árekstur tveggja bíla við Saltvík á Vesturlandsvegi og sex sjúkrabílar hafa verið sendir á vettvang, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu en nánari upplýsingar um liðan fólksins liggja ekki fyrir.
Kl. 19:23 barst tilkynning um alvarlegt umferðarslys á Vesturlandsvegi skammt frá Enni á Kjalarnesi. Vesturlandsvegurinn er lokaður frá Þingvallavegi og að Hvalfjarðarvegi. Hjáleið er um Kjósarskarðsveg.
Viðbragðsaðilar eru komnir á staðinn. Búist er við að vegurinn verði lokaður í nokkurn tíma.