Gallup: Sjálfstæðisflokkur enn að tapa fylgi á landsvísu þrátt fyrir viðsnúning í Reykjavík
Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Gallup nú um mánaðamótin, sem sagt var frá á RÚV um helgina er Sjálfstæðisflokkurinn enn að tapa fylgi á landsvísu þrátt fyrir viðsnúning í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík fyrir rúmri viku og mælist nú með 23,8% fylgi. Fyrir mánuði var fylgi flokksins skv. Gallup á landsvísu 25,3%.
Þótt flokkurinn hafi farið neðar en þetta í könnunum Gallup á síðustu árum fer tæpast á milli mála að hann er að festast í fjórðungsfylgi, plús eða mínus eftir atvikum.
Er ekki kominn tími á að þessi fylgisþróun verði rædd á opnum fundum í flokknum?
Það hefur nánast aldrei verið gert, þótt Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi, hafi komið eldri sjálfstæðismönnum á óvart á fundi í Valhöll fyrir kosningar með því að nefna fylgistap allmargra undanfarinna ára og nauðsyn þess að snúa þeirri þróun við.
Blokkarmyndun í pólitík
Það eru smátt og smátt að verða til tvær blokkir í pólitíkinni til hægri og vinstri, kannski svolítið í ætt við það, sem lengi hefur verið í Danmörku.
Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Miðflokkur eiga margt sameiginlegt og það sést í meirihlutamyndunum í einstökum sveitarstjórnum.
Skilin á milli Samfylkingar og VG eru að verða stöðugt óljósari og raunar erfitt að skilja hvers vegna þeir tveir flokkar renna ekki endanlega saman. Að vísu er það rétt, að andstaða við aðild Íslands að ESB er enn formleg afstaða VG, en fram hjá því verður ekki litið, að aðildarumsókn Íslands að ESB hefði ekki verið samþykkt á Alþingi sumarið 2009 nema vegna þess að þingmenn flokksins greiddu atkvæði með því og jafnframt er augljóst að einstaka áhrifamenn VG hafa það sem kalla má „loðna“ afstöðu til málsins. Sósíalistaflokkurinn er svo kominn til sögunnar til vinstri við VG og á eftir að angra VG þeim meginn frá.
Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins eru þarna á milli en fyrir utan ESB er enginn raunverulegur ágreiningur á milli Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar, einungis sami skoðanamunur og hefur alltaf verið til staðar innan Sjálfstæðisflokksins.
Með sama hætti og skoðanamunur er ekki lengur fyrirstaða fyrir sameiningu VG og Samfylkingar má segja það sama um Framsókn og Miðflokkinn. Í síðara tilvikinu er það persónulegur ágreiningur sem veldur því að menn hafa skipað sér í tvo flokka.
Öðru máli gegnir um Sjálfstæðisflokk og Viðreisn. Þar er grundvallarágreiningur á ferð um ESB. Evrópusambandið sem slíkt er hins vegar í uppnámi. Bretar eru að fara, ómögulegt að vita hvað gerist á Ítalíu og ríkin í austurhluta Evrópu, sem áður tilheyrðu Sovétblokkinni munu ekki láta Brussel segja sér fyrir verkum.
Þess vegna kann þessi grundvallarágreiningur að hverfa með tíð og tíma og sjálfstæðismenn í báðum flokkum renna saman á ný.
Segir Styrmir Gunnarsson um stjórnmálin í dag.