Karlmaður var á dögunum sýknaður af ákæru þess efnis að hafa tekið dreng hálstaki. Horfði dómarinn til þess að Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður og réttargæslumaður drengsins, hefði upplýst áður en aðalmeðferð í málinu hófst að hún ætti í ástarsambandi við Sturlu B. Johnsen, lækninn sem skrifaði upp á vottorðið eftir mynd sem drengurinn sýndi honum. Ástarsambandið hefði staðið yfir síðan í september 2022. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu Vísir.is nær vinskapur þeirra lengra aftur áður en ástir tókust með Sögu og Sturlu.
Dómari í málinu leit til þess við ákvörðun sína að læknirinn hefði skrifað upp á áverkavottorð eftir mynd af áverkum sem ósannreynt var hvenær var tekin. Þá yrði ekki litið fram hjá því að réttargæslumaður drengsins og læknirinn ættu í ástarsambandi. Réttargæslumaðurinn er auk þess mjög góð vinkona móður drengsins til langs tíma. Þetta kemur fram á fréttavefnum Visir.is
Dómari taldi að meta þyrfti framburð Sturlu læknis með hliðsjón af því að hann ætti í ástarsambandi með Sögu sem gætti réttinda drengsins. Saga Ýrr og móðir drengsins eru nánar vinkonur. Með hliðsjón af ólíkum vitnisburði drengjanna og ástarsambandinu taldi dómarinn verulegan vafa leika á því að atvik hafi orðið með þeim hætti sem drengurinn lýsti og ákært var fyrir.
Myndin af áverka talin hafa lítið gildi
Meðal lykilgagna í málinu var læknisvottorð frá heimilislækni sem samkvæmt heimildum fréttastofu Vísis er Sturla B. Johnsen, annar eigandi Heilsuverndar og vinur móður drengsins á Facebook. Fram kemur í dómnum að drengurinn hafi leitað til Sturlu fjórum dögum eftir hina meintu árás. Drengurinn hafi ekki verið með neina áverka en mætt með ljósmynd og sagt hana tekna fjórum dögum fyrr. Þar hefði mátt sjá rautt far á hálsi sem læknirinn sagði passa við lýsingu drengsins á árásinni. Þá var í vottorðinu lýst andlegri líðan móður eftir atvikið. Í vottorðinu mátti sjá að vottorðið var að mestu byggt á samtölum Sturlu við móður drengsins.
Björn Þorvaldsson, fyrrverandi saksóknari og nú dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, fór í gegnum vitnisburð ákærða, brotaþola og vitna í niðurstöðukafla dómsins.