Gunnar Bragi Sveinsson lýsti yfir vonbrigðum sínum með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á Alþingi nú í kvöld og sagði m.a. ,,Ríkisstjórnin fékk skilaboð í kosningunum 26. maí sl. þar sem flokkur forsætisráðherra beið afhroð. Hinir stjórnarflokkarnir töpuðu einnig, Framsóknarflokkurinn tapaði miklu í sveitarfélögum sem hafa hingað til verið þeirra sterkustu vígi og Sjálfstæðisflokkurinn fékk á mörgum stöðum töluvert minna upp úr kjörkössunum og tapaði meiri hlutum víða.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var enda ekki mynduð um stefnur eða lausnir heldur völd, stöðu og stóla eins og kjósendur hafa áttað sig á.
Fyrir um átta mánuðum var stofnaður nýr flokkur, Miðflokkurinn. Á innan við 30 dögum tókst fólkinu í flokknum að bjóða fram til alþingiskosninga og ná besta árangri í sög nýs flokks í alþingiskosningum. Fékk flokkurinn 10,9% atkvæða og sjö þingmenn kjörna.“
Hér að neðan er ræða Gunnars Braga í heild sinni:
,,Þann 26. maí sl. sló fólkið sem starfar í Miðflokknum annað met er boðið var fram undir merkjum hans í 12 sveitarfélögum og í samvinnu við aðra í tveimur. Auk þess átti flokkurinn fulltrúa á öðrum listum víða um land og fékk flokkurinn níu fulltrúa kjörna og nýtt met slegið.
Í dag féll enn eitt metið þegar Karl Liljendal Hólmgeirsson, varaþingmaður Miðflokksins, var yngstur allra til að taka sæti á Alþingi. Til hamingju, Karl.
Árangur Miðflokksins hefur vakið og fangað athygli fræðimanna og álitsgjafa sem rætt hafa sigra flokksins. Þeir sem töldu flokkinn vera bólu hafa nú skipt um skoðun. Ég vil nota þetta tækifæri, kæru landsmenn, og þakka öllu því frábæra fólki sem skóp þessa sigra flokksins með gríðarlegri vinnu og stuðningi við stefnu og lausnamiðaðan málflutning hans sem sannarlega hefur náð athygli landsmanna. Það er ykkur að þakka, kæru landsmenn, að Miðflokkurinn er kominn til að vera.
Þótt gaman sé að setja met eru það líka aðrir hlutir sem skipta máli og kannski ekki minna máli. Það að Miðflokkurinn sé búinn að ná fótfestu í íslenskum stjórnmálum mun breyta íslenskri stjórnmálasögu á næstu árum og áratugum. Með góðum málefnum sem byggja á skynsemi og rökum munum við ná árangri. Við byggjum á því sem við höfum gert og horfum til þess sem við ætlum að gera. Flokksmenn, kjörnir fulltrúar og stuðningsmenn flokksins, ætla sér að hlusta á allar góðar hugmyndir, ræða þær og móta leiðir og lausnir byggðar á rökræðum. Þannig ætlum við að finna bestu leiðirnar til að tryggja frelsi einstaklingsins til athafna og sjálfsbjargar um leið og sameiginlegir sjóðir tryggi velferð.
Hinir gömlu flokkar hafa hins vegar fjarlægst grunngildi sín og stefnur og misst sjónar á mikilvægi lausna í samfélagi nútímans. Orka þeirra fer í að verja og tryggja sér stöðu og stóla byggða á núverandi ástandi og hugmyndafræði en ekki lausnum framtíðarinnar. Þannig flokkur ætlar Miðflokkurinn ekki að vera.
Á landsþingi flokksins sem haldið var í apríl sl. var stefna flokksins mótuð af flokksmönnum og þeirri stefnu erum við að vinna eftir. Við förum ekki leið forystu Sjálfstæðisflokksins, kæru landsmenn, sem lét það verða sitt fyrsta verk eftir landsfund flokksins að hafna samþykkt grasrótarinnar um nýtt þjóðarsjúkrahús og beygja sig undir vilja kerfisins. Hafa margir núverandi og fyrrverandi Sjálfstæðismenn undrast hversu blygðunarlaust forystan fór gegn grasrótinni.
En þetta er ekki eina dæmið um skort á getu forystu Sjálfstæðisflokksins til að standa upp í hárinu á kerfinu. Annað dæmi er um forkaupsrétt ríkisins á hlutabréfum í Arion banka. Hvers vegna var tækifærið ekki nýtt? Var um að kenna viljaleysi eða var það hluti af samkomulaginu við helminginn af vinstri stjórninni frá árinu 2009 sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú leitt aftur til valda?
Ríkisstjórnin fékk skilaboð í kosningunum 26. maí sl. þar sem flokkur forsætisráðherra beið afhroð. Hinir stjórnarflokkarnir töpuðu einnig, Framsóknarflokkurinn tapaði miklu í sveitarfélögum sem hafa hingað til verið þeirra sterkustu vígi og Sjálfstæðisflokkurinn fékk á mörgum stöðum töluvert minna upp úr kjörkössunum og tapaði meiri hlutum víða. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var enda ekki mynduð um stefnur eða lausnir heldur völd, stöðu og stóla eins og kjósendur hafa áttað sig á.
Góðir tilheyrendur. Þau voru ekki lítil, hin fögru fyrirheit í stjórnarsáttmálanum um eflingu Alþingis. Því miður hefur ástandið hér sjaldan verið verra og traustið lítið. Því get ég ekki áttað mig á því, virðulegi forseti, hvaðan ræða þess hæstv. ráðherra sem stóð á undan mér kemur eiginlega. Hún er í engu samræmi við það sem við upplifum á þingi, alþingismenn. Málefnafátækt ríkisstjórnarflokkanna er slík að nefndir væru verklitlar ef ekki væri fyrir mál stjórnarandstöðunnar. Samt sem áður hafa stjórnarliðar lagt sig fram við að stöðva mál stjórnarandstöðunnar í nefndum.
Meðal þeirra mála sem Miðflokkurinn hefur lagt fram á yfirstandandi þingi er nýting forkaupsréttar ríkisins að hlutabréfum í Arion banka og óháð fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús, svo eitthvað sé nefnt, mál sem eru brýn en hafa verið tafin í nefndum af hálfu meiri hlutans, þrátt fyrir að flestir sjái hversu vitlaust það er að byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut, með þeim 46.000 ferðum steypubíla um Miklubrautina sem bíða. Samt er haldið áfram af því að kerfið stjórnar.
Fátt sýnir meira en vinnubrögð meiri hlutans hversu mikil öfugmæli yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um eflingu Alþingis er. Ríkisstjórn sem mynduð er um það eitt að komast til valda mun ekki taka þau skref sem nauðsynleg eru til framtíðar. Hana skortir bæði stefnu og þor og á meðan stýra þeir sem taka sér valdið.
Mig langar að nefna frumvarp um veiðigjöld, hæstv. forseti. Engin skýring hefur fengist á því hvers vegna sjávarútvegsráðherra lagði það mál ekki fram heldur fékk til þess atvinnuveganefnd. Var það mál of erfitt fyrir ríkisstjórnina eða treysti flokkur ráðherrans sér kannski ekki til að flytja málið?
Góðir landsmenn. Ísland er nú land tækifæranna en þá ætla stjórnvöld að nýta kjörtímabilið í nefndastörf og starfshópa í stað þess að framkvæma. Við viljum taka ákvarðanir, við viljum framkvæma og við viljum bera á því ábyrgð. Fram undan eru spennandi tímar í Miðflokknum, kæru landsmenn, frekari uppbygging starfsins um land allt og stefnum við á að við næstu alþingiskosningar verði komið á öflugt félagsstarf í flestum sveitarfélögum landsins. Við munum halda áfram að móta stefnu flokksins og leita eins og fyrr til þeirra sem best til þekkja við útfærslur á nauðsynlegum lausnum. Horft verður á Ísland allt.
Við ætlum að stunda pólitík og vinna að þeim verkefnum sem okkur eru falin. Við ætlum ekki að útvista verkefnum til „kerfisins“, við ætlum að stjórna kerfinu með lausnum, en hafi kerfið bestu lausnirnar munum við hlusta á þær. Við sjáum að breiður hópur fólks vill kynna sér stefnu og nálgun Miðflokksins. Með þessu fólki ætlum við að byggja upp öflugan flokk sem hrista mun upp í íslenskum stjórnmálum með því að þora og hafa kjark. Við höfum sýnt það og munum sýna það áfram. — Góðar stundir.“