Jón Gunnar Jónsson var í gær skipaður forstjóri Samgöngustofu frá og með 6. ágúst n.k. Jón Gunnar er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Technical University of Denmark og B.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur verið stjórnandi sl. 30 ár, síðast sem framkvæmdastjóri Actavis á Íslandi. Þá starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá Alcan á Íslandi og á Englandi og sem framleiðslustjóri Sláturfélags Suðurlands.
Umsækjendur um embætti forstjóra Samgöngustofu voru 23. Í greinargerð hæfnisnefndar eru tilgreindir fimm umsækjendur sem nefndin telur hæfasta til að gegna umræddu starfi og var Jón Gunnar einn þeirra. Í mati nefndar, eftir yfirferð umsagnargagna og viðtöl, fékk Jón Gunnar flest stig þeirra fimm sem nefndin mat hæfasta. Ráðherra tók viðtöl við þá fimm einstaklinga sem nefndin mat hæfasta og var það mat hans að Jón Gunnar væri best til þess fallinn að gegna starfinu.
Í nefndinni sátu Árelía Eydís Guðmundsdóttir, lektor við HÍ, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Guðrún Gísladóttir, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Helgi Valberg Jensson, yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.