Forsætisráðherra vildi hlúa að Landsspítalanum, fyrir kosningar – Fólk er búið að fá nóg
Forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir lagði mikla áherslu á að Landsspítalinn fengi fé til þess að standa undir hlutverki sínu.
Ef forsætisráðherra vinstristjórnarinnar stæði við þau orð, væri staðan öðruvísi í langvarandi launadeilu ljósmæðra sem að hefur þvælst fyrir ríkisstjórn hennar, allan hennar líftíma, eða frá stofnun og til dagsins í dag og engin lausn í sjónmáli.
Ljósmæður segjast mæta hroka og virðingarleysi af hálfu stjórnvalda.
Stjórnarandstæðingurinn Katrín Jakobsdóttir hafði þetta um málefni Landsspítalans að segja fyrir um 10 mánuðum síðan, þann 13. september 2017, þ.e.a.s áður en hún varð sjálf forsætisráðherra.
RÚV fór yfir áherslur hennar og gagnrýni á þáverandi forsætisráherra og núverandi samstafsmann sinn, Bjarna Benediktsson :
,,Katrín sagði að hérlendis þyrftu stjórnvöld sem vilja byggja upp félagslega rekið heilbrigðiskerfi þar sem Landspítalinn standi undir hlutverki sínu og heilsugæslan fái fjármagn til að vera fyrsti viðkomustaður. Hún sagði að nú þyrfti stjórnvöld sem hefðu ekki þá hugsjón í heilbrigðismálum að útvista fé til einkaaðila sem greiði sér síðan arðgreiðslur af almannafé. „Það er pólitískt val, pólitísk ákvörðun.“ Sagði Katrín, í stjórnarandstöðu.
Varðandi láglaunafólk og fólk sem lifir við og undir fátæktarmörkum, sagði Katrín Jakobsdóttir þegar að hún var í stjórnarandstöðu m.a. að fátækt fólk gæti ekki beðið lengur eftir leiðréttingu.
,,Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra.
Fólk er búið að fá nóg
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness er einn fjölmargra sem að furðar sig á ríflegum launahækkunum ríkisforstjóra og forstjóra íslenskra fyrirtækja. Hann segir að það stefni í átök á íslenskum vinnumarkaði sem vart eiga sér fordæmi.
Reyndar hafa bæði hann og Ragnar Þór Ingólfsson lýst yfir stríði í komandi kjaraviðræðum vegna framgöngu t.d. Kjararáðs sem hefur úrskurðað milljóna hækkanir ofan á milljóna króna mánaðarlaun eins og liggur fyrir. Á sama tímabili hefur vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur ekki getað samið við t.d. ljósmæður og himinn og haf er á milli launahækkana hjá þeim launahæstu eins og að framan er getið og svo þeirra sem að lægstu launin hafa sem og þeirra sem eru í millitekjuhópnum.
Vilhjálmur skrifaði pistil í gær sem vakti mikla athygli víða og þar fór hann yfir launahækkanir fimmtán stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum, bæði opinberum og í einkageiranum. Þessir fimmtán stjórnendur hafa samtals fengið tæplega átta milljóna króna launahækkun á mánuði á undanförnum tólf mánuðum
,, Jæja ruglið sem kemur frá yfirelítu þessa lands ríður ekki við einteyming en núna er launahækkun upp á 1,2 milljón til bankastjóra Landsbankans skilgreind sem hófleg. Já, launahækkun sem er ígildi lágmarkslauna fjögurra verkamanna er hófleg. Rétt að geta þess að forstjóri Landsvirkjunar fékk einnig launahækkun sem nam 1,2 milljón.
Hugsið ykkur veruleikafirringuna og þá botnlausu græðgi sem hefur heltekið efri lög þessa samfélags.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að íslenskt verkafólk þarf núna að undirbúa sig undir hörðustu átök sem sést hafa á íslenskum vinnumarkaði í marga áratugi þegar kjarasamningar verkafólks renna út eftir 123 virka vinnudaga.
Það liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins gráta sínum krókódílatárum eins og ætíð þegar samningar verkafólks eru lausir og segja ekkert svigrúm vera til launahækkana hjá atvinnulífinu. Það blasir einnig við að stjórnvöld virðast ekki ætla að gera neitt hvað varðar róttækar kerfisbreytingar þar sem hagsmunir almennings og lágtekjufólks verði hafðir að leiðarljósi og meðal annars tekið á okurvöxtum, verðtryggingu og húsnæðisliðurinn tekinn úr lögum um vexti og verðtryggingu.
Það er ekki nokkurn vilja að finna hjá stjórnvöldum til að fara í slíka vegferð því enn og aftur virðast stjórnvöld ætla að hygla efri lögum samfélagsins þegar kemur að skattabreytingum. Einnig er engan vilja að finna hjá stjórnvöldum til að taka stöðu með almenningi og skuldsettum heimilum gegn okurvöxtum, verðtryggingu og annarri ofurálagningu sem fjármálakerfið leggur á herðar almennings.
Þar sem ekkert svigrúm er til staðar að mati grátkórs SA (nema fyrir efri lög samfélagsins) og enn og aftur ætla stjórnvöld að hunsa vilja almennings til róttækra kerfisbreytinga er ekkert annað að gera en að blása til glerharðra verkfallsátaka strax í upphafi næsta árs.
Það er morgunljóst að verkafólk ætlar ekki og mun ekki sætta sig við þetta óréttlæti, ójöfnuð og misskiptingu og því verður klárlega látið sverfa til stáls í komandi kjarasamningum.
Við stjórnvöld og atvinnurekendur vil ég segja: það er eru einungis 123 virkir vinnudagar þar til kjarasamningar renna út og því er stundarglasið að tæmast svo forða megi verkfallsátökum sem ekki hafa sést á íslenskum vinnumarkaði áður.
Ég vil rifja enn og aftur upp þá skefjalausu græðgi sem hefur heltekið stjórnendur á síðustu 12 mánuðum og verkafólk er svo sannarlega tilbúið að berjast fyrir hækkun sinna launa og þeim nauðsynlegu kerfisbreytingum sem þarf að gera til að auka ráðstöfunartekjur þeirra! Það er lýðheilsumál að lagfæra kjör verkafólks!
Hérna eru launahækkanir nokkra stjórnenda á síðustu 12 mánuðum:
• Forstjóri Landsvirkjunar hækkaði í launum um 1,2 milljónir á mánuði, mánaðarlaun 3,3 milljónir.
• Bankastjóri Landsbankans hækkaði um 1,2 milljónir á mánuði, mánaðarlaun 3,2
• Forstjóri N1 hækkaði í launum um 1, milljón á mánuði, mánaðarlaun 5 milljónir.
• Forstjóri Eimskips hækkaði í launum um tæp 700 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 8,6 milljónir.
• Forstjóri Isavia hækkaði um 632 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,1 milljón.
• Bæjarstjóri Kópavogs hækkaði um 612 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,5 milljónir.
• Forstjóri Símans hækkaði í launum um 433 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4 milljónir.
• Forstjóri Reita hækkaði í launum um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3,7 milljónir.
• Forstjóri Íslandspósts hækkaði í launum um 360 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
• Forstjóri HB Granda hækkaði í launum um 330 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,2 milljónir.
• Forstjóri Hörpu hækkaði um 267 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,6 milljónir.
• Forstjóri Sjóvá hækkaði í launum um 242 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,1 milljón.
• Sjónvarpsstjóri RÚV hækkaði í launum um 250 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
• Forstjóri Landsnets hækkaði í launum um 180 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
• Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 156 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3 milljónir.“
Segir Vilhjálmur Birgisson um stöðuna í launamálum í dag og áréttaði að það stefnir í hörð átök á vinnumarkaði.
https://gamli.frettatiminn.is/2018/04/12/thingmenn-fa-45-haekkun-vinstri-stjornin-lysir-yfir-omoguleika-launahaekkun-ljosmaedra/