Guðrún Björk Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins beztu, er látin, 63 ára að aldri
Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun en Guðrún andaðist á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut fyrsta dag septembermánaðar eftir erfið veikindi.
Guðrún fæddist í Reykjavík hinn 21. febrúar 1962 og var alla tíð mikill Vesturbæingur og tryggur KR-ingur. Foreldrar Guðrúnar voru þau Sigríður Júlíusdóttir og Kristmundur Elí Jónsson og var Guðrún þriðja í röð fjögurra systra, hinar eru Sigríður Dúna, Kristbjörg Elín og Júlía Hrafnhildur Kristmundsdætur.
Guðrún giftist Halldóri Garðari Björnssyni 1986 og eignuðust þau soninn Baldur Inga 1985. Guðrún og Halldór skildu.
Guðrún var áberandi í íslensku viðskiptalífi þar sem hún stýrði einu þekktasta fyrirtæki landsins um árabil, Bæjarins beztu pylsum. Afi hennar, Jón Sveinsson, var einn þeirra sem hófu rekstur pylsuvagnsins árið 1937 en faðir Guðrúnar tók ungur við þeim rekstri og sá um hann í áratugi. Guðrún var því af þriðju kynslóð pylsusala og í hennar tíð stækkaði fyrirtækið mikið og sölustöðum fjölgaði.
Fjórða kynslóðin er nú tekin við rekstrinum eftir að Baldur Ingi tók við stjórninni af móður sinni. Þá hafa Bæjarins beztu um áratugaskeið verið helsti bakhjarl körfuboltadeildar KR sem Guðrún stýrði um tíma sem formaður. Þá hefur hún setið í aðalstjórn KR um árabil og í stjórn Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ).
Frá unga aldri stundaði Guðrún laxveiðar af ákefð og þá helst í Grímsá í Borgarfirði þar sem fjölskyldan þekkti vel til.
Auk sonarins Baldurs Inga lætur Guðrún eftir sig sambýlismann, Jónas Björn Björnsson, tvö stjúpbörn, Guðjón og Helgu Björgu, og þrjú barnabörn.