Lögregla var með sérstakt eftirlit við heimili Snorra Mássonar, þingmanns Miðflokksins, í nótt vegna þess að honum hafa borist hótanir. Þetta herma heimildir fréttastofu. Snorri hefur sætt harðri gagnrýni síðustu daga eftir að hafa rætt um bakslag í baráttu hinsegin fólks í Kastljósi.
Ríkisútvarpið greindi fyrst frá og þar kemur fram að þátturinn hafi kallaði fram sterk viðbrögð og fjölmargir hafi blandað sér í umræðuna. Til að mynda hafa ráðherra, biskup, þingmenn og landlæknir svo einhver séu nefnd gagnrýnt orðræðu og framkomu Snorra í þættinum. Fjölmargir hafa lagt orð í belg á samfélagsmiðlum.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var heimilisfang Snorra gert opinbert á samfélagsmiðlum í gær og honum hótað en hann býr með eiginkonu sinni og börnum.
Snorri vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var kallað. Í svari embættis ríkislögreglustjóra um málið segir að embættið tjái sig ekki um öryggisráðstafanir einstaklinga.