,,Í Reykjavík er hlutfallslega hátt hlutfall af fólki sem býr við sára fátækt og á ekki fyrir mat“
Ég hef lagt fram tillögu í borgarráði sem mun taka á matarsóun og hjálpar í leiðinni bágstöddum í Reykjavík – hún er svohljóðandi: Lagt er til að Reykjavíkurborg komi upp aðstöðu/matartorgi miðsvæðis í Reykjavík fyrir fyrirtæki sem eiga matvæli í lok dags og vilja koma þeim áfram ókeypis í neyslu til að minnka matarsóun.
Greinargerð: Mikil matarsóun á sér stað hér á landi sem og í öðrum löndum. Tillaga þessi er sett fram til að taka á því vandamáli. Fjölmörg fyrirtæki framleiða „matarskammta“ s.s. samlokur, salatbakka, og fleira í þeim dúr, til sölu sem hafa stuttan líftíma. Í mörgum tilfellum er um umboðssölu í verslunum að ræða og taka birgjar matvöruna til baka þegar síðasti söludagur nálgast og farga í stað þess að koma henni í neyslu.
Einnig myndu veitingahús/veitingastaðir sem framleiða matarskammta sem standa eftir í lok dags pakka matvörunni í neyslupakkningar og gefa á matartorgið. Í Reykjavík er hlutfallslega hátt hlutfall af fólki sem býr við sára fátækt og á ekki fyrir mat.
Tillagagan er því nokkurs konar höfuðborgartillaga til að koma til móts við þennan hóp sem eru m.a. heimilislausir, fólk í neyslu, einstæðir foreldrar, flóttamenn, fólk í virkri neyslu og fleiri. Matartorgið yrði hrein viðbót við þær hjálparstofnanir sem þegar starfa og úthluta mat. Verði tillagan samþykkt þá nær hún tveimur mikilvægum markmiðum: að hjálpa þeim sem minnst mega sín og að minnka matarsóun.