Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda skýrslu um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi.
Í maí 2022 óskaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið eftir því við Veðurstofu Íslands að fram færi mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum í þéttbýli. Ofanflóðahætta er víða á atvinnusvæðum bæði í og við þéttbýli og í dreifbýli og er skýrslunni ætlað að skapa yfirsýn yfir þann ofanflóðavanda sem við er að eiga á atvinnusvæðum í ofanflóðahættu.
Frá 1996, þegar uppbygging varnarvirkja komst í núverandi horf, hefur Ofanflóðanefnd lagt áherslu á að verja íbúðarhúsnæði í þéttbýli. Þar eru enn stór verkefni óunnin og er áætlað að lokið sé við rúmlega helming þeirra verkefna sem þarf að vinna til þess að verja öll íbúðarhús á C-svæðum í þéttbýli.
Í skýrslunni Mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi er fjallað um tíu þéttbýlisstaði þar sem atvinnuhús eru á C-svæði, en samkvæmt reglugerð skal á slíkum svæðum tryggja öryggi með varanlegum varnarvirkjum eða uppkaupum íbúðarhúsnæðis. Meiri staðaráhætta er leyfð í atvinnuhúsum en í íbúðarhúsum.
Í skýrslunni eru lagðar eru til varnir þar sem þær eru mögulegar og kostnaðarmat er minna eða á pari við brunabótamat þess sem er varið. Ekki eru lagðar til varnir fyrir þau hús sem ekki svarar kostnaði að verja eða það er tæknilega ómögulegt
Efni skýrslunnar hefur verið kynnt sérstaklega fyrir þeim sveitarfélögum sem búa við ofanflóðahættu og fjallað er um í skýrslunni, en í kjölfar þess samráðs auk kynningar í samráðsgátt stjórnvalda mun ráðuneytið á grundvelli niðurstöðu skýrslunnar og samráðs kynna til samráðs tillögu um lagafrumvarp þar sem m.a. verður skoðað hvort skýra eigi gildissvið laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum þannig að skýrt sé að lögin taki einnig til atvinnusvæða.
Óskað er eftir umsögnum og ábendingum um efni skýrslunnar og er umsagnafrestur í samráðsgátt stjórnvalda til 15. nóvember nk.
Skýrsla um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi