Hjón á Selfossi höfðu heldur betur heppnina með sér eftir að hafa keypt sér lottómiða í Krambúðinni á Selfossi, miðinn góði færði hjónunum vinning upp á rúmar 104 milljónir. Lottópotturinn var hæsti sexfaldi vinningur hingað til og fór hann óskiptur á einn miða.
Maðurinn hafði séð í fjölmiðlum að vinningshafinn frá öðrum degi jóla væri enn ekki búinn að gefa sig fram og hafði hann orð á því við konu sína að það væri nú óskandi að þessi stóri vinningur færi á góðan stað. Aldrei grunaði hann að konan sín lumaði á miðanum góða í veskinu sínu.
Hjónin voru ekki almennilega búin að ná áttum með þessar gleðifréttir og má segja að þau hafi enn verið hálf skjálfandi þegar þau komu með vinningsmiðann á skrifstofu Íslenskrar getspár. Með í för var barnabarn þeirra hjóna og sögðu þau að það fyrsta sem þau ætluðu að gera væri að fara með snáðann í búð þar sem hann mætti velja sér eitthvað fallegt, ekki stóð á svarinu hjá snáðanum; “eitthvað Liverpool tengt” sagði hann alsæll. Aðrar ráðstafanir á vinningnum voru þau ekki enn farin að huga að.
“Það geta greinilega allir dottið í lukkupottinn” sagði vinningshafinn að lokum er þau kvöddu höfuðstöðvar Íslenskrar getspár í Laugardalnum, brosandi út að eyrum, enda allt í einu rúmum 104 milljón krónum ríkari.
Starfsfólk Getspár/Getrauna óskar vinningshafanum innilega til hamingju og þakkar um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íþrótta- og ungmennafélögin í landinu sem og öryrkja sem njóta góðs af sölu Lottós.
Ein milljón bíður eftir að vera sótt úr Milljólaleiknum
Þann 26. desember voru dregnir út 26 eins milljón króna vinningar í Milljólaleiknum. Einn vinningur er enn ósóttur og viljum við biðja alla þá sem keyptu sér 10 raða Vikinglotto miða hjá Jolla í Hafnarfirði í byrjun desember að skoða vel jólaleiksmiðann sem fylgdi með, því á miðanum með númerinu 10036260 leynist vinningur upp á eina milljón króna.
Discussion about this post