Tveir eru látnir eftir umferðarslys á Grindavíkurvegi þar sem fólksbíll og steypubíll rákust saman upp úr klukkan ellefu í dag.
Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang voru tvö ökutæki utan vegar. Mikil hálka var á slysstað þótt veðuraðstæður hafi að öðru leyti verið góðar. Lögreglan segir í færslu á Facebook að rannsókn málsins sé á frumstigi.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur verið upplýst og tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var fengin til aðstoðar. Grindavíkurvegi var lokað tímabundið en hefur verið opnaður að nýju. Lögreglan segist ekki geta veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.
Umræða