Málverk af Jóni Baldvin Hannibalssyni og Bryndísi Schram, sem hefur áratugum saman hangið á vegg í matsal Menntaskólans á Ísafirði, hefur verið tekið niður að sögn fréttaritara RÚV á Ísafirði.
Þar er sagt frá því að Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, sem er í stjórn femínistafélags Menntaskólans á Ísafirði, segi að í kjölfar þess að konur komu fram í janúar og greindu frá samskiptum sínum við Jón Baldvin, hafi nemandi í femínistafélagi MÍ farið þess á leit við starfsfólk skólans að málverkið yrði tekið niður og var það gert samdægurs.

Þá er þess getið að Jón Baldvin Hannibalsson var fyrsti skólameistari Menntaskólans á Ísafirði á árinum 1970-1979 en meðal þeirra sem hafa sagt sögur sínar af kynnum við Jón Baldvin undir myllumerkinu #metoo eru fyrrverandi nemendur við skólann.
Samkvæmt upplýsingum frá skólanum er málverkið gjöf frá fyrsta útskriftarárgangi skólans og var fært skólanum á 10 ára stúdentsafmæli þeirra árið 1984. Málverkið hefur því hangið uppi í meira en þrjá áratugi. Ekki sé sérstök hefð fyrir því að málaðar séu myndir af fyrrverandi skólameisturum. Þá segist Dagbjört telja að margir nemendur hafi ef til vill ekki áttað sig á því hvaða maður væri á myndinni.
Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins, gegndi einnig stöðu skólameistara við skólann á tímabili og kenndi jafnframt tungumál.
https://www.fti.is/2019/02/04/23-nafnlausar-sogur-um-jon-baldvin-i-760-manna-hop/