Flugvélin sem saknað hefur verið frá því um hádegisbil á fimmtudag er fundin. Þetta kemur fram í tilkynningu og á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar.
Vélin fannst með fjarstýrðum kafbát fyrirtækisins Teledyne Gavia í Ölfusvatnsvík, í sunnanverðu Þingvallavatni, á ellefta tímanum í kvöld. Rúmlega þúsund viðbragðsaðilar hafa tekið þátt í leitinni, þar á meðal á níunda hundrað björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, þyrlusveit landhelgisgæslunnar, lögregla, séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sérsveit ríkislögreglustjóra, starfsmenn Isavia, einkaaðilar auk fjölmargra annarra.
Landhelgisgæslan vill þakka öllum þeim sem komið hafa að þessari umfangsmiklu leit fyrir óeigingjarnt og fórnfúst starf við krefjandi aðstæður. Rannsókn málsins og næstu skref eru í höndum lögreglunnar á Suðurlandi.
Viðbragðsaðilar sem unnið hafa unnið að leitinni eru komnir í hvíld og í hádeginu er fyrirhugaður stöðufundur þar sem farið verður yfir næstu skref. Lögreglan á Suðurlandi getur veitt frekari upplýsingar að þeim fundi loknum.
Umræða