Skömmu fyrir hádegi í dag barst lögreglunni tilkynning þess efnis að maður hefði ekki skilað sér til vinnu eftir páska. Síðast hafði heyrst af honum s.l. sunnudag og hafði hann þá ætlað að ganga að Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi. Lögreglan hóf þegar eftirgrennslan og fann bifreið hans á bifreiðastæði við Skóga.
Í framhaldi var ákveðið að ræsa út björgunarsveitir á svæðinu til leitar ásamt því að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar til aðstoðar við leitina. Það var svo um kl. 16 þegar áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar fann manninn skammt frá Baldvinsskála. Maðurinn var látinn þegar hann fannst.
Maðurinn sem var á sextugsaldri var af erlendu bergi brotinn en búsettur á Íslandi. Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins, en ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Veður á Fimmvörðuhálsi hefur verið lélegt síðustu daga og aðstæður til göngu á því svæði ekki góðar.
Umræða