Öskuhaugahagfræði
Í nýlegum innsendum pistli í æsifréttastíl rekur Kristinn H Gunnarsson fyrrum stjórnarformaður Byggðastofnunar málefni borgarafundar í Bolungarvík fyrir skemmstu. Á þeim fundi voru málefni sjókvíaeldisfyrirtækja á Vestfjörðum rædd og samkvæmt pistli Kristinns eru Vestfirðingar svo gott sem samhljóða í kröfum sínum um uppbyggingu í atvinnumálum með laxeldi. Samkvæmt Kristni gerðu íbúar við Ísafjarðardjúp harða kröfu að ráðherra um stuðning hans við laxeldi í Ísafjarðardjúpi.
Í umræddum skrifum sínum segir Kristinn jafnframt að málefni sjókvíaeldisfyrirtækja séu „pólitísk átök sem snúast um vald og peninga“. Þarna hittir greinarritarinn svo sannarlega naglann á höfuðið.
Haraldur Eiríksson, skrifar.
En því miður er það nánast það eina sem hægt er að taka undir í umræddri grein, sem lýsir vel þeirri steingervingapólitík sem Kristinn H Gunnarsson stendur fyrir.
Framtíðarhorfur Kristinns og annara vestfirskra stjórnmálamanna.
Á Vestfjörðum starfar stærsta sjókvíaeldisfyrirtæki landsins, Arnarlax, sem er í eigu norskra aðila. Umrætt fyrirtæki sem Kristinn hefur svo gríðarlegar væntingar til, og vill að sé burðarstoðin í uppbyggingunni fyrir vestan, tapaði jafnvirði 2.1 milljarðs íslenskra króna í fyrra.
Þetta verður að teljast ákveðið afrek í ljósi þess að heimsmarkaðsverð á laxi var á sama tíma hátt auk þess sem umrædd norsk fyrirtæki eru að fá afnotaréttinn af hafsvæðum Vestfjarða nánast gefins miðað við það sem gengur og gerist annarsstaðar í heiminum. Í ofanálag tilkynnti svo ráðherrann sem Kristinn kýs að níða niður í skrifum sínum að íslenskir skattgreiðendur þyrftu að niðurgreiða starfsemi umræddra fyrirtækja fyrst um sinn.
Þetta er væntanlega sem tónlist í eyru Kristinns H Gunnarssonar, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að í upphafi árs þá tilkynnti umrætt eldisfyrirtæki fjárfestum að farið yrði í aðhaldsaðgerðir til að ná niður framleiðslukostnaði.
Tilkynning sem virðist hafa farið framhjá framámönnum í pólitík á Vestfjörðum og um leið íbúum.
Múgæsing
Það virðist nefninlega sem svo að Kristinn H Gunnarsson hafi fallið í sömu gryfju og sumir kjörnir fulltrúar almennings á Vestfjörðum. Hið rétta er að flestir þessi fulltrúar fólksins, kosnir og sjálfskipaðir, fá falleinkunn fyrir að kynna skjólstæðingum sínum meintar staðreyndir í rekstri sjókvíaeldisfyrirtækja. Á gullvagninn er hoppað án þess að líta til hægri eða vinstri, en um leið gleymist að skoða reynslu manna frá fyrri tíð, nú eða annarsstaðar að úr heiminum. Staðreyndin er sú að ekkert hérlent sjókvíaeldisfyrirtæki hefur lifað af. Í síðasta æðiskasti eldismanna fóru 50 fyrirtæki á hausinn og önnur 30 hættu rekstri með gríðarlegum skaða fyrir íslenskt samfélag. Talið er að sú eldisbylgja hafi kostað um 11 milljarða að þávirði, sem er í dag á við kostnað Dýrafjarðagangna.
Þá, líkt og nú, var einnig að finna norska fjárfesta sem höfðu lofað gulli og grænum skógum. Hinar dreifðu byggðir fóru ekki vel út úr því ævintýri og þá staðreynd þekkir Kristinn mæta vel. Framámönnum á Vestfjörðum ber einfaldlega samfélagsleg skylda til að kynna íbúum Vestfjarða allar hliðar, þar með talið þær sem þeir hafa hingað til vanrækt og snúa að mengun, umhverfisáhrifum og ekki síst reynslu af þessum iðnaði hérlendis í stað þess að fara fram með gífuryrðum.
Ábyrgð fjölmiðla
Þar komum við að ábyrgð fjölmiðla á Vestfjörðum. Í upphafi árs átti sér stað stærsta slys sem um getur í kvíum Arnarlax, þar sem þegar er vitað að 53.000 laxar drápust vegna bágra umhverfisástæðna. Matvælastofnun hefur staðfest að þessi dauði var enn meiri og sagði í fréttatilkynningu umfangið yrði ekki ljóst fyrr en eftir nokkra mánuði. Viðlíka slys á sér ekki hliðstæðu hérlendis.
Bæjarins Besta, fjölmiðill sá sem í hvað bestri aðstöðu var til að gera málinu skil kaus að greina ekki frá því, og í raun þagga málið niður. Umræddur fjölmiðill sem gefur sig út fyrir að vera „óháð fréttablað á Vestfjörðum“ kaus að minnast vart á slysið fyrr en að það birti yfirlýsingu frá Arnarlaxi þar sem í raun lítið var gert úr því. Þetta er merkilegt í ljósi þess að umrætt slys gerðist á þröskuldinum hjá þessu óháða fréttablaði. Þetta er staðreynd sem kemur kannski ekki ýkja á óvart, því ekki er langt síðan að Fjölmiðlanefnd dæmdi fjölmiðilinn Bæjarins Besta sekan um brot á lögum, einmitt fyrir umfjöllun sína um laxeldi. Í ljós kom að miðillinn hafði tekið við greiðslum frá sjókvíaeldisfyrirtækjum og tengdum aðilum. Síðan þá hefur fjölmiðillinn skipt um hendur og er nú kominn í eigu fólks sem er með öllu fyrirmunað að ræða málefni sjókvíaeldisfyrirtækja með eðlilegum hætti.
Kannski er kominn tími til að Fjölmiðlanefnd taki aftur í taumana.
Mikilvægi þess að miðla upplýsingum
Ég bið framámenn á Vestfjörðum að doka aðeins við og líta í eigin barm.
Upplýsingum til íbúa á svæðinu virðist vera stjórnað af smáum hópi hagsmunaafla sem sjá þann kost vænstan að greina frá sumu – en ekki öðru.
Þetta er aðferðafræði sem Kristinn H. Gunnarsson hefur fordæmt í gegnum tíðina. Það kemur því nokkuð á óvart að hann og samferðamaður hans Einari K. Guðfinnsson virðast hafa snúist á einni nóttu þegar að kemur að umsvifum mengandi erlendra fyrirtækja innan lögsögu Íslendinga.
Kristinn gengur meira að segja svo langt að segja að verðmætum sé fórnað fyrir þrönga hagsmuni fárra veiðiréttareigenda. Kristinn veit mæta vel að yfir 1500 fjölskyldur í hinum dreifðu byggum hérlendis eiga allt sitt undir að varlega sé stigið til jarðar í málefnum sjókvíaeldis. Því til staðfestingar má benda á að yfir 50 prósent atvinnutekna í landbúnaði á Vesturlandi eru tilkomnar frá stangaveiðimönnum.
En sú staðreynd kemur fyrrum stjórnarformanni Byggðastofnunar og meðreiðasveinum hans sennilegast bara ekkert við um borð í gullvagninum. Eftir stendur hins vegar sú staðreynd að samkvæmt Kristni er stefnan að byggja upp mengandi iðnað á einu landsvæði, og ógna með því afkomu fólks annarsstaðar landinu.
Það hefði einhverntímann verið kölluð „Öskuhaugahagfræði“. Höfundur er stangaveiðimaður.
https://gamli.frettatiminn.is/2018/03/05/laxeldi-vestfirdingar-thetta-radirnar/