Skólabókardæmi að skella skuldinni á aðra
Eva Joly, lögmaður Jóhannesar Stefánssonar, uppljóstrara í Samherjaskjölunum segir mikilvægt að uppljóstrarar fái vernd og leiðsögn þegar þeir ákveða að stíga fram. Hún segir tilraunir Samherja til að skella skuldinni á Jóhannes skólabókardæmi um hvernig eigi að reyna að verja sig gegn uppljóstrurum.
„Þetta var fyllilega fyrirsjáanlegt. Þetta er það sem þeir segja alltaf: „Það var ekki ég.“ En ef við spyrjum okkur hver hagnaðist á þessu, hver borgaði, trúir þá einhver því í raun og veru að Jóhannes Stefánsson hafi haft vald til að skipa fyrir um millifærslur upp á milljónir dollara? Augljóslega ekki.
Svo er önnur mikilvæg röksemd: Jóhannes Stefánsson hætti að vinna fyrir Samherja í júlí 2016. Það sem kemur fram í skjölunum, sem allir geta nú lesið, er að þessi viðskipti héldu áfram fram á þetta ár.“
Svona hljóðar viðtalið við Evu Joly, sem er fremst í röð þeirra lögmanna sem hafa barist gegn spillingu í samtali við Millu Ósk á Rúv, fyrir rúmum tveimur árum síðan, í vikunni þegar Samherjamálið kom fyrst í ljós opinberlega. og viti menn, hún hafði 100% rétt fyrir sér miðað við þær ofsóknir sem Jóhannes Stefánsson má augljóslega búa við samkvæmt þeim gögnum sem rannsakendur hafa birt. Allt eftir bókinni, eins og Eva Joly sagði og hún heldur áfram í viðtalinu:
Hún segir að málið sé nú til meðferðar. Rannsókn málsins sé til að mynda langt komin í Namibíu. „Það er ekki það sem Jóhannes segir heldur það sem hann sannar. Skjölin liggja fyrir og við sjáum hvernig fyrirtæki kaupa sig í gegnum kerfið; á yfirborðinu lítur allt vel út og á pappírnum virðist þetta vera samstarf við heimamenn og að fyrirtæki gæti vel að afrísku hagsmununum. Það lofar nýjum störfum og virkri starfsemi.
Svo líður tíminn og ekkert af þessu verður að veruleika, það er ekki fyrir slysni.“
Eva segir málið sé gríðarlega umfangsmikið. „Þetta er alvarlegt spillingarmál. Talað er um að milljónir dollara hafi verið greiddar í mútur til embættismanna í Namibíu og Angóla.
Fyrir þessi ríki er þetta geysihá upphæð, þetta eru afar fátæk lönd.“