-4.2 C
Reykjavik
Fimmtudagur - 9. febrúar 2023
Auglýsing

,,Reis upp á afturlappirnar og heimtaði meiri kvóta“ – Formaður SFS (LÍÚ)

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS (Áður LÍÚ) birti grein á vef útgerðarmanna (kvótaþega), þar sem hún skammast út í Landssambands smábátasjómanna og formann þess sem hún segir að hafi ,,risið upp á afturlappirnar og heimtaði meiri kvóta þar sem strandveiðarnar hafi gengið vel í ár.“ Hér að neðan er greinin í heild sinni en þar kemur m.a. fram hjá henni að ,,fyrir þá sem ekki viti, þá verði að taka kvóta frá einum ef auka á kvóta annars.“ Þar er verið að fjalla um afnotarétt á fiski, stærri og minni skipa. :

Frá þér til mín

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS (Áður LÍÚ) skrifaði grein á vef kvótaþega

Hafrannsóknastofnun kynnti á dögunum úttekt á ástandi helstu nytjastofna og ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. Stjórnvöld styðjast við þessa úttekt þegar ákvörðun er tekin um hversu mikið má veiða hér við land á næsta fiskveiðiári sem hefst 1. september. Sem fyrr er það þorskurinn sem mestu skiptir. Ráðlegging Hafró er að dregið verði úr veiðum á honum um 6% úr tæpum 223 þúsund tonnum í tæp 209 þúsund tonn. Meira kemur til því frá fiskveiðiárinu 2019/20 er samdrátturinn í þorski 23% en þá var ráðlögð heildarveiði rúm 272 þúsund tonn.

Það er alveg skýrt að svona harkalegur samdráttur mun verða þungur baggi fyrir mörg fyrirtæki. Bátar og skip munu liggja við bryggju í lengri tíma og vinna í landi mun dragast saman.

Þegar íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar er það til þess að gera þeim kleift að treysta verðmætasköpun til framtíðar og standast samkeppni á erlendum markaði, þar sem 98% af íslensku sjávarfangi eru seld. Það á bæði við um skip og vinnslu í landi. Forsendur fjárfestinga geta því hæglega riðlast þegar samdráttur upp á tæpan fjórðung verður á svo stuttum tíma. Vissulega eru fyrirtæki misvel búin til þess að takast á við samdráttinn, en engum blöðum er um það að fletta að höggið er verulegt fyrir mörg þeirra.

Í COVID ástandinu reyndu yfirvöld að höfða til samstöðu fólks, gerum þetta saman, var sagt og tókst bærilega. Nú mætti endurvinna slagorðið vegna þorsksins og segja við þá sem sækja sjóinn; gerum þetta saman. Um það eru þó ekki allir sammála og gáskafullur hópur harðdrægra vermanna telur sig ekki þurfa að leggjast á aðrar árar en sínar eigin.

Hafrannsóknastofnun var ekki fyrr búin að tilkynna ráðlagða veiði fyrir næsta fiskveiðiár en formaður Landssambands smábátasjómanna reis upp á afturlappirnar og heimtaði meiri kvóta þar sem strandveiðarnar hafi gengið vel í ár.

Margar útgerðir sem eru með starfsemi og trygg störf allt árið verða því miður að sætta sig við að hjá þeim sé skorið niður um fjórðung á tveimur árum. Smábátasjómenn sem sækja sjóinn rétt yfir sumarmánuðina telja sig hins vegar eiga að fá meira í sinn hlut. Fyrir þá sem ekki vita verður að taka kvóta frá einum ef auka á kvóta annars. Kvóti yrði alltaf tekinn af fyrirtækjum sem í dag skapa miklar tekjur og störf um allt land – fyrirtækjum sem þegar hafa orðið fyrir verulegum búsifjum vegna mikils samdráttar í aflamarki á stuttum tíma, fólki sem treystir á störf og tekjur allt árið um kring. Það er engin sanngirni eða skynsemi í því að svipta fólk lífsbjörginni til þess eins að þjónkast þeim sem enga samstöðu sýna þegar gefur á bátinn.

Höfundur greinarinnar er Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS (Áður LÍÚ).

,,Með réttu ætti að gefa fiskveiðar innfjarða frjálsar'' segir fiskifræðingur