Síðasti sólarhringurinn var með rólegra móti hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, einungis tveir sem gistu fangageymslur lögreglu og það vegna ölvunar og óspekta. Tvö minniháttar fíkniefnamál komu upp s.l. nótt. Engar líkamsárásir voru tilkynntar eftir nóttina.
Töluverður erill er búinn að vera á lögreglustöðinni í dag en Þjóðhátíðargestir hafa verið duglegir að koma við og fá að blása í áfengismæli áður en þeir halda af stað á bifreiðum sínum. Nokkuð er um óskilamuni á lögreglustöðinni og töluvert um fyrirspurnir frá Þjóðhátíðargestum sem týnt hafa símum, veskjum ofl.
Í gær var rólegt hjá lögreglu fyrri part nætur en undir morgun varð töluverður erill. Fjórar líkamsárásir lágu fyrir eftir nóttina, tvær þeirra eru minniháttar og tvær alvarlegri og þurfti að flytja tvo aðila með sjúkraflugi til Reykjavíkur vegna áverka sem þeir fengu. Þrír menn eru í haldi vegna rannsóknar málanna.
10 fíkniefnamál komu upp í fyrrakvöld og nótt og eru þau öll svokölluð neyslumál, nema eitt þar sem grunur er um sölu.
Laugardaginn 3. ágúst var töluverður erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, 6 gistu fangaklefa, þrír vegna minni háttar líkamsárása, einn sem var grunaður um sölu fíkniefna og tveir vegna ölvunar og óspekta. Engir alvarlegir áverkar voru eftir þessar líkamsárásir. 10 fíkniefnamál komu upp og var í öllum nema einu um svokölluð neyslumál að ræða.