Lögreglan lýsir eftir manni sem hefur verið týndur í mánuð
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir Andrius Zelenkovas, 27 ára, frá Litháen. Andrius er 175 sm á hæð, grannvaxinn og með skollitað hár. Ekkert hefur spurst til hans frá því snemma í ágúst, en þá var Andrius talinn á leið til Akureyrar. Málið var tilkynnt til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í fyrradag.
Staðfest hefur verið að hann hafi verið í miðbæ Akureyrar fyrir um mánuði síðan, en lögregla vinnur nú að því að rekja ferðir hans betur með símagögnum hans. Hann hefur búið á Íslandi í nokkur ár.
Hann lét síðast vita af sér í lok ágúst í gegnum samfélagsmiðla en systir hans vakti athygli á hvarfi hans á Facebook.
Þeir sem geta veitt upplýsingar um ferðir Andrius, eða vita hvar hann heldur sig, eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.