Heilbrigðisráðherra hefur orðið við ósk Páls Matthíassonar forstjóra Landspítala um að hann láti af starfi sínu. Páll lætur af embætti frá og með 11. október næstkomandi. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala, mun að beiðni ráðherra taka við stöðu forstjóra tímabundið til áramóta, þar til skipað hefur verið í embættið að nýju. Páll mun verða nýjum forstjóra innan handar næstu mánuði.
Páll hefur gegnt starfi forstjóra Landspítala í átta ár en þar á undan var hann í rúm fjögur ár framkvæmdastjóri geðsviðs spítalans. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þakkar Páli samstarfið: „Landspítali er risavaxinn vinnustaður þar sem fengist er við öll flóknustu verkefnin sem á reynir í heilbrigðisþjónustu við landsmenn. Það er gríðarmikið verkefni að stjórna þessum spítala við venjulegar aðstæður, hvað þá við einhverjar erfiðustu aðstæður sem hugsast getur eins og í heimsfaraldri“ segir ráðherra.
Páll segir þakklæti sér efst í huga á þessum tímamótum, gagnvart starfsfólki spítalans og fjölmörgum samstarfsstofnunum: „Spítalinn hefur aldrei verið öflugri en nú með skýra heilbrigðisstefnu og reynsluna af baráttunni við heimsfaraldur í farteskinu. Framundan eru áskoranir á næstu árum, samfara gríðarlegri uppbyggingu sem þarf að haldast í hendur við trygga mönnun. Á þessum tímapunkti tel ég því viðeigandi að nýr forstjóri taki við stjórn spítalans,“ segir Páll Matthíasson.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri meðferðarsviðs síðan haustið 2019. Guðlaug Rakel er fædd árið 1961. Hún brautskráðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1986 og starfaði sem slíkur í 10 ár. Í kjölfarið sinnti hún ýmsum stjórnunarstörfum, meðal annars í lyfjageiranum, en einnig sem hjúkrunarforstjóri á St. Jósefsspítala og sviðsstjóri hjúkrunar á Landspítala.
Guðlaug Rakel hefur lokið MBA-gráðu og bætt við sig þekkingu í lýðheilsuvísindum. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra bráðasviðs við stofnun þess árið 2009 og gegndi síðan starfi framkvæmdastjóra flæðisviðs frá 2014 til 2019.