Framkvæmdir vegna nýrra strætóstöðva við Hafnarfjarðaveg / Kringlumýrarbraut standa yfir. Þrengja hefur þurft veginn austan megin, á leiðinni til Reykjavíkur, til að tryggja öryggi vegfarenda og starfsfólks. Vegfarendur sem þarna fara um hafa tekið eftir þvi að framkvæmdir hafa dregist á langinn og valdið töfum því samfara. En hvað veldur þessari seinkun á verklokum?
,,Verkefnið fer líklega aðeins yfir áætlun en er á góðri vegferð núna. Ætlunin var að malbika báðar hliðarnar í síðustu viku. Það sem veldur töfinni austan megin er að þar er verið að steypa festu fyrir neysluvatnslögn veitna en steypan þarf smá tíma til að ná sér. Þegar það er búið þá verður fyllt upp í sárið og malbikað yfir, segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
Í verkinu felst einnig færsla og lenging fráreinar af Hafnarfjarðarvegi (40-01) að Suðurhlíð. Gera á stíga að strætóstöðvunum, þvera stíg á Suðurhlíð og þrengja syðsta hluta Suðurhlíðar. Hljóðmön verður aðlöguð að þessum breytingum, niðurföll og ljósastaurar verða færðir til, auk þess sem nýir ljósastaurar verða settir upp.
Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát við vinnusvæðið, sem er þröngt og starfsfólk og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum. Vegagerðin biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þessar framkvæmdir kunna að hafa í för með sér fyrir vegfarendur.