,,Á pappír var fiskurinn í góðu lagi, í raun var ólöglegt að selja hann og hættulegt að borða.“ Svona hefst fréttaskýring á vef norska ríkissjónvarpsins (NRK) unnin upp úr fyrsta sjónvarpsþætti af þremur frá rannsóknablaðamannateyminu að baki Brennpunkt, virtasta fréttaskýringaþætti Noregs.

Í þættinum eru afhjúpuð ítrekuð glæpsamleg vinnubrögð í norska sjókvíaeldisiðnaðinum, en risarnir sem ráða þar ríkjum eru þeir sömu og eiga þennan iðnað að mestu leyti hér á landi. Sagt er frá þvi hvernig eldislax sem er stórskaður eftir laxalús eða vetrarsár er seldur á neytendamarkað eftir að áverkarnir hafa verið skornir burt af slátruðum fiskinum. Svona starfar þessi iðnaður líka hér.
Haustið 2023 þegar sjókvíaeldisfyrirtækin Arctic Fish og Arnarlax misstu gjörsamlega tökin á lúsafaraldri á eldissvæðum sínum á Vestfjörðum birtist frétt á vef Vísis þar sem haft var eftir Daníel Jakobssyni, þá millistjórnanda hjá Arctic Fish, að á landinu væru matsmenn að meta eldislaxinn áður en honum væri slátrað.
Fréttinni var breytt sama dag og hún birtist og ummælin um matsmennina tekin út. Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum fengum staðfest að að það hefði verið gert að ósk Daníels. Hann hafði talað af sér. Þegar upp var staðið haustið 2023 höfðu Arnarlax og Arctic Fish þurft að slátra og farga um 1,7 milljón eldislaxa vegna þess hversu ömurlega illa særðir þeir voru af völdum laxalúsar. Það er ígildi 28-falds fjölda íslenska villta laxastofnsins.
Aldrei hefur fengist á hreint hvort eitthvað af öðrum eldislöxum úr sömu sjókvíum hafi endað á neytendamarkaði að lokinni úttekt matsmanna Daníels, sem nú er orðinn forstjóri Arctic Fish.

