Veður hamlar mælingum á rennsli. Hlaupórói fer minnkandi
Nýjustu rennslismælingar í Gígjukvísl sem gerðar voru milli 10.30 -13 í dag gáfu rennsli upp á um 2.800 m3/s. Rennslið mældist um 2.600m3/ síðdegis í gær. Rafleiðni hefur haldist nánast óbreytt frá því í gær, laugardag.
Íshellan hefur sigið um alls um 75m klukkan 14 í dag og hægt hefur verulega á siginu. Mælingar sýna einnig að talsvert hefur dregið úr hlaupóróa undir jökli frá því að óróinn náði hámarki í nótt. Hvoru tveggja eru vísbendingar um að Grímsvötn hafi tæmt sig af hlaupvatni að mestu.
Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn um 6-10 klukkustundir að berast úr vötnunum niður að jökulsporði Skeiðarárjökuls og út í Gígjukvísl. Því má vera að hlaupið í farvegi Gígjukvíslar hafi þegar náð hámarki. Það verður hinsvegar ekki ljóst fyrr en hægt verður að gera nýjar rennslismælingar. Vatnamælingamenn á vegum Veðurstofunnar eru að störfum við Gígjukvísl en aðstæður til mælinga eru mjög slæmar vegna veðurs og því er ekki víst að nýjar mælingar berist fyrr en á morgun, mánudag.
Graf sem sýnir hlaupóróa. Mælingar sýna að hlaupórói undir jökli náði hámarki í nótt. Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn um 6-10 klukkustundir að berast úr vötnunum niður að jökulsporðinum og út í Gígjukvísl. Vöttur(vot) er mælitæki staðsett nokkurn veginn mitt á milli Grímsfjalls og sporðsins á Skeiðarárjökli.
Enginn gosórói mælist
Náið hefur verið fylgst með skjálftavirkninni við Grímsvötn. Talsvert hefur verið um ísskjálfta sem mælast þegar íshellan brotnar vegna atgangsins í hlaupinu. Enginn gosórói mælist, en vísindamenn munu halda áfram að greina þá skjálfta sem mælst hafa.
Í útsýnisflugi í gær sást nýr sigketill suðaustan við Grímsfjall og er staðsettur á svipuðum slóðum og farvegur hlaupvatns liggur úr Grímsvötnum undir jöklinum. Vísindamenn munu rýna í mælingar og gögn sem geta gefið vísbendingar um hvernig og hvenær ketillinn myndaðist, en viðbúið er að breytingar geti orðið á jarðhitakerfinu við Grímsvötn eftir atburðarás síðustu daga. Veður hefur hamlað útsýnisflugi í dag, en áfram verður fylgst náið með framgangi mála við Grímsvötn og Gígjukvísl.
Sigketillinn sem sást í útsýnisflugi í gær suðaustur af Grímsvötnum. Horft í átt að eystri hnjúknum við Grímsvötn sem baðaður er síðdegissól. (Ljósmynd: Veðurstofan – Njáll Fannar Reynisson)
Uppfært 5.12. kl.11.00
Vatnamælingamenn Veðurstofunnar eru við mælingar á rennsli í Gígjukvísl en ekki er búist við niðurstöðum úr þeim mælingum fyrr en eftir hádegi í dag. Síðdegis í gær var rennslið komið í um 2.600 rúmmetra á sekúndu sem var í takt við spár um framgang hlaupsins. Íshellan í Grímsvötnum hefur sigið um 70 metra á einni og hálfri viku.
Farið var í útsýnisflug í gær og sýna myndir teknar í því flugi að vatnið kemur aðallega frá austanverðum Skeiðarárjökli, en einnig úr einni rás við miðjan jökulsporðinn.
Mynd tekin í útsýnisflugi í gær og sýnir hlaupvatn streyma undan austanverðum Skeiðarárjökli (Ljósmynd: Veðurstofan – Njáll Fannar Reynisson)
Discussion about this post