Í aðdraganda 8. mars:
Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar um kjarabaráttuna og hvetur til góðrar mætingar á föstudaginn:
,,Ég tilheyri stétt láglaunakvenna og mér finnst fáránlegt að yfirstétt karla ætlist einfaldlega til þess að ég viðurkenni að líf láglaunakonunnar sé augljóslega minna virði en líf þeirra, að tími láglaunkonunnar sé frá náttúrunnar hendi milljón, nei, milljarð-sinnum minna virði en tími ríka karlsins, að ég bugti mig og beygi fyrir lögmálum kerfis sem tekur ekkert tillit til mín eða þarfa minna.
Ég er láglaunakona og mér finnst fáránlegt að yfirstétt karla haldi að ég muni nokkru sinni viðurkenna að líf láglaunakonunnar sé svo lítils virði að það megi ekki einu sinni berjast fyrir því að grundvallarhugmyndir lýðræðissamfélagsins um frelsi og réttlæti eigi líka við um hana.
Ég er láglaunakona og ég mun aldrei hætta að trúa á drauminn um að láglaunakonan fái loksins notið réttlætis og sanngirni í íslensku samfélagi. Ég er láglaunakonu-femínisti og ég segi eins og Angela Davis: Ég ætla ekki lengur að sætta mig við það sem ég get ekki breytt. Ég ætla að breyta því sem ég get ekki sætt mig við.
Ég er láglaunakonu-femínisti og ég einfaldlega krefst þess að fámenn yfirstétt karla komist ekki lengur upp með að taka allar ákvarðanir sem snúa að efnahagslegri tilveru minni og þeirra kvenna sem hafa verið dæmdar til að bera fáránlegar byrðar í nafni samræmdrar láglaunastefnu. Ég einfaldlega krefst þess að sú samfélagslega grimmdar-gildra, sem gerir það að verkum að það er sama hvert láglaunakonan snýr sér, hún fær lítið borgað hér og lítið borgað þar, verði tekin samstundis úr sambandi.
Það er kúgun fólgin í því að dæma aðra manneskju til þess að fá ekki nóg til að framfleyta sér, það er kúgun fólgin í því að bilast af frekju þegar manneskjan kvartar undan stöðu sinni og það er kvennakúgun fólgin í því að ætla að kremja baráttu láglaunakvenna fyrir réttlæti.
Það er löngu tímabært að íslenskir karlar sem tilheyra efnahagslegri og pólitískri valdastétt hætti að einblína á eigin langanir og þarfir og fari, í fyrsta skipti, að hugsa um þarfir og langanir annarra.
Þeir eiga að byrja á þörfum og löngunum láglaunakvenna og með því sýna sáttavilja, sýna fram á getuna til að hugsa um hlutina öðruvísi en eingöngu út frá eigin sjónarmiðum, getuna til að sýna tillitssemi, getuna til að hlusta, skilja og þroskast.
Við láglaunakonur erum í stéttabaráttu. Baráttan okkar snýst um betri laun og öruggt húsnæði á eðlilegu verði. Hún snýst um möguleikana á að vera eitthvað meira en ódýrt vinnuafl, um brauð og rósir. Hún snýst um lýðræði, frelsi og réttlæti. Hún er óumflýjanleg og henni ber að fagna. Hún er kvennabarátta og því ber að fagna.
Að lokum.
Ég umorða lokaorð Barböru Ehrenreich í bók sinni um líf láglaunafólks, Nickel and Dimed örlítið og geri að mínum:
Dag einn munu þær þreytast á því að uppskera svo lítið og krefjast þess að fá það greitt sem þær eiga skilið. Þessum degi mun fylgja mikil reiði, honum fylgja verkföll og uppnám. En veröldin ferst ekki og við verðum á endanum öll betur sett.
Sjáumst 8. mars.“