Neytendasamtökin munu áfram veita leigjendum og leigusölum ráðgjöf og þjónustu með stuðningi stjórnvalda en samningur þess efnis við innviðaráðuneytið var endurnýjaður í dag. Það voru Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri, og Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sem undirrituðu samninginn.
Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna hefur verið starfrækt frá árinu 2011. Þjónustan felst einkum í að veita leigjendum og leigusölum íbúðarhúsnæðis upplýsingar um rétt þeirra og skyldur samkvæmt húsaleigulögum og veita leigjendum lögfræðiráðgjöf þegar upp kemur ágreiningur vegna leigusamninga um íbúðarhúsnæði.
Stuðningur ráðuneytisins nemur 7,2 milljónum króna fyrir árið 2023. Samtökin fá einnig sérstakan styrk vegna túlkaþjónustu fyrir innflytjendur sem leita til Leigjendaaðstoðarinnar.
Þjónusta Leigjendaaðstoðarinnar er fólki að kostnaðarlausu. Reglulegir símatímar eru á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 12:30-15:00. Þá eru margvíslegar upplýsingar um réttindi og skyldur leigjenda á vef Leigjendaaðstoðarinnar – leigjendur.is. Þar má einnig skoða algengar spurningar og svör og senda fyrirspurnir rafrænt. Vefurinn hefur verið þýddur bæði á ensku og pólsku.