Það er hægt að taka manninn úr þorpinu en ekki þorpið úr manninum
Martin Eyjólfsson lét flytja tveggja tonna grjót til Berlínar
Tveggja tonna steini hefur verið komið fyrir við norrænu sendiráðin í Berlín, en steininn er úr Eldfelli eða síðan gosinu. Steinninn hefur vakið mikla athygli en til-gangur hans er að vekja athygli á margmiðlunarsýningu um ógnarkrafta náttúrunnar á Íslandi í sameiginlegu rými sendiráðanna. Fyrir þessu framtaki stendur Eyjamaðurinn Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Berlín.
Ógnarkraftar náttúrunnar voru í aðalhlutverki í Felleshus, norrænni miðstöð sendiráðanna í Berlín í síðustu viku þegar sýninguna MAGMA var opnuð en tilefnið er 100 ára fullveldi Íslands. Sýningin byggist að mestu á margmiðlunartækni og er hún byggð á gagnvirkum sýningum sem Gagarín hefur sett upp bæði í Lava Centre á Hvolsvelli og Perlunni. Búast má við að um þrjátíu þúsund gestir sæki sýninguna, sem stendur til 1. júlí næstkomandi.
Sendiráð Íslands í Berlín hefur veg og vanda af undirbúningi sýningarinnar, í samvinnu við Gagarín og Basalt, en Icelandair, Íslandsstofa, Landsvirkjun, Samskip, Lava Centre og Perlan eru bakhjarlar. Sýningin dregur fram frumkrafta Íslands, eldinn, hraunið, seigluna og kraftinn og beinir sjónum að því hvernig náttúruöflin hafa skapað landið og mótað fólkið sem það býr.
Þetta er 2 tonna hlunkur og hefur hann vakið mikla athygli
Risavöxnum hraunmola hefur verið komið fyrir í Felleshus sem gestir geta snert og myndað. Þetta er yngsti steinn í Þýskalandi en eins og áður segir var hann tekin úr Eldfellshrauninu fyrir hálfum mánuði síðan og sá Samskip um flutningin. Martin sagði að steininn hafi vakið mikla athygli, ,,Þetta er 2 tonna hlunkur og hefur hann vakið mikla athygli og var það tilgangurinn. Það er upplýsingar um gosið við hliðina á steininum og ýmist er fólk að lesa þær, láta taka myndir af sér við steininn og sumir klifra jafnvel uppá hann. Jón úr Vör sagði að það væri hægt að taka manninn úr þorpinu en ekki þorpið úr manninum. Eigum við ekki að segja að ég sé núna byrjaður að taka þorpið til mín í bókstaflegri merkingu, þetta er sem sagt bara rétt að byrja! Þetta lækni heimþrána?.“
Vinir Elmars Erlingssonar gáfu mynd af Íslandi og eru á leið til Eyja
Eins og margir vita bjuggu hjónin Erlingur Richardsson og Vigdís Sigurðardóttir í Berlín ásamt börnum sínum á meðan Erlingur var að þjálfa þar. Á opnunina í síðustu viku kom hópur úr Picasso-grunnskólanum í Berlín en þar hafa nokkrir krakkar verið að læra um Ísland í 2 kennslustundir á viku í allan vetur. Þetta er hópur sem tengist Elmari Erlingssyni og hyggst hópurinn heimsækja Eyjarnar okkar heim í október.
,,Hópurinn gaf sendiráðinu stóra mynd sem krakkarnir höfðu teiknað af Íslandi. Það var landakort með ýmsum teikningum á sem þeim þótti minna á Ísland. Þar eru hestar, eldgos, tröll, álfar og ýmsar forynjur og síðan rak ég augun í nafnið ,,Heimir Hallgrímsson? innan um allar þessar fígúrur. Þó að það væri nú freistandi að stríða Heimi dálítið með þennan félagsskap þá segir manni þetta bara það hversu mögnuðum árangri hann hefur náð, að krökkum í Berlín skuli detta í hug að skrifa nafnið hans Heimis þegar Ísland ber á góma segir meira en mörg orð,“ sagði Martin að lokum. Í viðtali við Eyjafréttir