Það var tilhlökkun í lofti í Reykjavík og mátti sjá hjólreiðafólk hvarvetna á stígunum á leið í vinnu eða skóla. Það er gleðiefni þegar Hjólað í vinnuna hefst en Reykjavíkurborg hefur alltaf lagt metnað sinn í að fjölga og bæta hjólastígana.
Setningarhátíðin var í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og flutti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, ávarp ásamt ráðherrunum Willum Þór Þórssyni og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Sigrúnu Ágústsdóttur hjá Umhverfisstofnun Birnu Þórarinsdóttur hjá UNICEF, Úlfari Linnet hjólreiðamanni og Andra Stefánssyni framkvæmdastjóra ÍSÍ.
Borgarstjóri sagði að það stefndi hratt í 40 km af sérstökum hjólastígum í Reykjavík á þessu ári og því næsta með þeim framkvæmdum sem nú eru í gangi og munu hefjast á þessu ári.
„Á næstu tveimur árum verður sannkölluð bylting fyrir hjólreiðafólk að hjóla um efri hluta Elliðaárdals ef horft er til þeirra verkefna sem eru í framkvæmd um þessar mundir og eru framundan,“ sagði hann og að innan tveggja til þriggja ára yrði hægt að hjóla á sérhjólastíg eftir öllum Elliðaárdalnum og upp í efri byggðir Kópavogs. Nýjar brýr í Elliðaárdalnum eru samþykktar á þremur stöðum á göngu- og hjólaleiðum og vonir standa til að framkvæmdir hefjist næsta haust. Þetta eru brýr yfir Gamla hitaveitustokkinn, Grænugróf og Dimmu.
35% aukning milli marsmánuða ´22 og ´23
Af talningum á hjólastígum er það helst að frétta að ef borinn er til dæmis saman marsmánuður 2022 og mars 2023, kemur fram aukning um 35% á milli ára á höfuðborgarsvæðinu og rúm 47% á þeim sex stöðum, sem fylgst hefur verið sérstaklega með frá byrjun innan Reykjavíkur. Sá hjóladagur sem skoraði hæst árið 2022 var 6. september með 15.062 hjól talin.
Í máli borgarstjóra kom fram að nú á vormánuðum verður því markmiði náð í öllum grunnskólum Reykjavíkurborgar að bjóða upp á hjólastæði fyrir að lágmarki 20% af fjölda nemenda og kennara við skólana. Áfram verður svo bætt í þar sem eftirspurnin er enn meiri og hafa margir skólar þegar farið vel fram úr því.
Þá má nefna að hjólatyllum hefur fjölgað í borginni og einnig er búið að merkja þær með ýmsum slagorðum eins og „Græna ljósið kemur alltaf aftur.“, „Tylltu þér aftur“ og „Kemur þú oft hingað?“. Segir á vef Reykjavíkurborgar.