Christopher G. Cavoli, yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins (SACEUR), er hér á landi í stuttri heimsókn. Hann átti í dag fund með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadótur utanríkisráðherra og kynnti sér starfsemi öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli.
Þau Þórdís Kolbrún og Cavoli hershöfðingi ræddu á fundi sínum þróun öryggismála í kjölfar árásarstríðs Rússlands gegn Úkraínu, aukin varnarviðbúnað bandalagsins og framlag Íslands, ekki síst til varna og eftirlits á Norður-Atlantshafi. „Fundurinn var afar gagnlegur og það er augljóst að bandalagið hefur verið fljótt að laga sig að nýjum áskorunum með því að styrkja eftirlit, fælingu og varnir. Þessir þættir skipta höfuðmáli þegar kemur að því að forðast stigmögnun og spennu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Cavoli er staddur hér á landi í stuttri heimsókn til að kynna sér aðstæður og viðbúnað, meðal annars á öryggissvæðinu í Keflavík, og ræða við fulltrúa stjórnvalda um aukinn varnarviðbúnað Atlantshafsbandalagsins. Auk þess að vera æðsti yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins er Cavoli hershöfðingi jafnframt yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Evrópu