13% FJÖLGUN ERLENDRA FARÞEGA Í MAÍ
Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll voru um 165 þúsund talsins í maí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 19.200 fleiri en í maí á síðasta ári. Aukningin í maí nemur 13,2% milli ára, sem er meiri hlutfallsleg aukning en aðra mánuði ársins. Sé litið til tímabilsins frá áramótum, eða janúar-maí, dregur úr aukningu í samanburði við fyrri ár. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í maí eða tæpur þriðjungur og fjölgaði þeim um 18,3% milli ára. Frá áramótum hafa 793.500 erlendir farþegar farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,6% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.
Fjölgun í maí*
Farþegum í maí fjölgar nú um 13,2% milli ára. Um er að ræða mestu aukningu sem mælst hefur milli mánaða það sem af er ári. Aukningin í maí hefur verið að jafnaði 25,6% milli ára síðastliðin fimm ár mest frá 2014-15 eða 36,4% og frá 2015-16 eða 36,5%,
Fjölgun brottfara í maí á milli ára er nú minni en verið hefur á síðustu árum. Frá 2014 til 2017 var aukningin á bilinu 27 til 45% á milli ára en er 3% nú. Þetta er sama þróun og gætt hefur aðra vetrarmánuði en hlutfallsleg aukning milli ára er þó minni í mars en aðra mánuði vetrarins. Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og Bretar nærri helmingur
Á grafinu, má sjá 12 fjölmennustu þjóðernin í maí. Brottfarir Bandaríkjamanna voru 31,2% af heild en þeir voru 18,3% fleiri í ár en á síðasta ári. Næstfjölmennastir voru Þjóðverjar eða 7,2% af heild í ár en þeir voru 11,1% fleiri en árið 2017. Þar á eftir komu Bretar, 6,4% af heild en þeim fækkaði um 6,3% milli ára. Hlutfallslega er mest fjölgun í brottförum Pólverja sem voru 77% fleiri í maí í ár en í fyrra en sem fyrr má leiða líkum að því að það sé í talsverðu mæli umferð pólskra ríkisborgara sem hér eru búsettir atvinnu sinnar vegna. Dregið hefur úr aukningu
Sé tímabilið frá áramótum skoðað (janúar-maí) í samanburði við sama tímabil nokkur ár aftur í tímann má glögglega sjá að dregið hefur verulega úr þeirri fjölgun sem verið hefur síðustu ár. Á myndinni hér til hliðar má sjá samanburð fjögur ár aftur í tímann, sem sýnir þetta vel. Frá áramótum hefur verið 5,6% aukning en á sama tíma fyrir ári var hún 46,5%. Næstu tvö tímabil þar á undan hafði aukning á milli ára verið á bilinu 30-35% milli ára. 2% fjölgun frá stærsta markaðssvæðinu
Sé breytingin síðan skoðuð nánar eftir mörkuðum má sjá að dregið hefur úr aukningu frá öllum mörkuðum í samanburði við fyrri ár. Norðurlandabúar standa í stað, Bretum fækkar um 6%, Mið og Suður-Evrópubúum fjölgar um 7% og einungis 2% fjölgun frá stærsta markaðssvæðinu, N-Ameríku. Aukning á milli ára er mest hjá þeim sem flokkast undir „annað“ en þar undir eru meðal annars Asíubúar og Austur-Evrópuþjóðir. Nánari skiptingu þess hóps má sjá á skífuritinu hér neðar á síðunni.
Breytt samsetning
Þegar hlutfallsleg samsetning brottfara er skoðuð á tímabilinu janúar til maí síðastliðin fimm ár má sjá að samsetning hefur breyst nokkuð eins og sjá má af grafinu hér til hliðar. Norður-Ameríkanar voru 28,2% af heild í ár og 29,1% í fyrra sem er nokkuð hærri hlutdeild en 2014, 2015 og 2016. Hlutdeild Breta var hins vegar um fimmtungur á tímabilinu janúar til maí í ár og í fyrra en ríflega fjórðungur 2014, 2015 og 2016. Norðurlandabúar hafa verið í kringum 8% af heild síðastliðna tvo vetur en hlutdeild þeirra hefur hins vegar minnkað með árunum. Hlutdeild Mið- og SuðurEvrópubúa hefur staðið í stað en þeirra sem falla undir ,,annað“ aukist umtalsvert.
Betri greining með fjölgun þjóðerna í talningu
Sá hópur sem hefur stækkað hvað mest samanstendur af ,,öðrum þjóðernum“ en þar á meðal eru Asíuþjóðir. Til að fá betri mynd af samsetningu farþega var þjóðernum í talningum fjölgað úr 17 í 32 í júní á síðasta ári, en þar var meðal annars bætt við Hong Kong-búum, Indverjum, Suður-Kóreumönnum, Singapúrbúum og Taívönum. Niðurstöður úr talningum sýna að 8,5% farþega það sem af er ári má rekja til Japana og Suðaustur-Asíubúa og 6,2% til Austur-Evrópubúa.
Ferðir Íslendinga utan
Um 62.800 Íslendingar fóru utan í maí í ár eða 22,5% fleiri en í maí 2017. Samtals voru brottfarir Íslendinga á tímabilinu janúar til maí um 251.600 talsins eða 11% fleiri en á sama tímabili árið 2017. *Nánari upplýsingar
Talning Ferðamálastofu og Isavia er hugsuð sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum. Um er að ræða handtalningu áður en komið er inn á brottfararsvæði og tölurnar ber að skoða með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér. Talningarnar ná yfir alla sem fara í gegnum hefðbundna öryggisleit. Ítreka ber að flestir skiptifarþegar eru ekki inn í þessum tölum.
Niðurstöður úr könnun sem Isavia lét framkvæma meðal brottfararfarþega á fyrsta ársfjórðungi ársins benda til að um 93% brottfararfarþega séu að heimsækja Ísland í persónulegum eða viðskiptalegum tilgangi og að 3,5% séu erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis til skemmri eða lengri tíma. Þeir sem millilenda án þess að fara út af flugvellinum séu 1,9% og þeir sem millilenda og nýta tækifærið til að fara út af flugvellinum og heimsækja einhverja staði séu 2,0%.
Sjá nánar ( https://www.ferdamalastofa.is/is/um-ferdamalastofu/frettir/nykonnun-um-fjolda-sjalftengifarthega-synir-minni-fravik-i-ferdamannatalningum ) Skiptingu milli þjóðerna má sjá í töflunni og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur,