Hampiðjan hf. hefur skrifað undir kaupsamning á öllu hlutafé norska fyrirtækisins FiiZK Protection AS, sem er leiðandi í framleiðslu og sölu á laxalúsapilsum fyrir fiskeldisgeirann og er með um 80% markaðshlutdeild laxalúsapilsa í Noregi.
Lúsapils er varnarveggur úr dúk sem er lagður utan um um fiskeldiskví til að varna því að laxalúsalirfur berist inn í fiskeldiskvíina og setjist á laxinn. Þessi varnarveggur er yfirleitt sérsniðinn að hverri kví fyrir sig og nær gjarnan 10-15 metra niður fyrir yfirborð sjávar og það vel niður fyrir yfirborðið að það nær niður fyrir lífssvæði lúsarinnar sem er í efstu metrum sjávarins. Lífsferill laxalúsarinnar er þannig að lúsin gýtur eggjum sem klekjast út í yfirborði sjávar og lirfurnar berast síðan um fyrir straumum og festa sig á laxinn ef færi gefst. Fyrir utan að varna því að lús berist inn í fiskeldiskvína þá er varnarveggurinn áhrifarík vörn gegn marglyttu sem getur borist inn í fiskeldiskvíar og valdið miklum skaða á laxinum.
Félagið er með megin starfsstöð sína í Valsneset fyrir utan Þrándheim í Noregi.
Hluti af starfsemi FiiZK Protection, sem staðsett er í Mjåtveit í nágrenni við Bergen er ekki hluti af þessum kaupum. Sú starfsemi tengist framleiðslu á dúkum fyrir lokaðar og hálflokaðar fiskeldiskvíar sem framleiddar eru af öðru félagi innan FiiZK samstæðunnar, FiiZK Industries AS. Tilfærsla á þessum hluta starfseminnar verður lokið áður en kaupin ganga að fullu leyti í gegn. Áætlað er að kaupin gangi að fullu í gegn í byrjun september.
Rekstur FiiZK Protection og framtíðartækifæri
Með þessum kaupum styrkir Hampiðjan enn frekar vöruframboð sitt til fyrirtækja í fiskeldi og getur nýtt sér þekkingu og reynslu FiiZK Protection til að bjóða upp á nýjar og framúrskarandi lausnir í baráttunni við lús í fiskeldi. Kaupin gera Hampiðjunni einnig kleift að selja vörur FiiZK Protection í þeim löndum þar sem Hampiðjan hefur þegar starfsemi og sér Hampiðjan mikil tækifæri í að auka sölu á lúsapilsum inn á þá markaði.
FiiZK Protection hefur sýnt fram á stöðugan vöxt og árangur á markaði. Á árinu 2023 nam velta starfseminnar um 100 mNOK (8,4 m€) og EBITDA hlutfall um 18%. Þessi tölfræði endurspeglar styrk og stöðugleika FiiZK Protection, sem nú mun verða hluti af Hampiðjusamstæðunni. Til samanburðar má geta að velta Hampiðjusamstæðunnar árið 2023 var um 322 m€.
Eftir kaupin munu starfsmenn félagsins verða um 30 talsins og eru þeir allir staðsettir í Valsneset og á skrifstofu félagsins í Þrándheimi.
Félagið mun starfa undir merkjum FiiZK Protection næstu mánuði en fyrir liggur að nafni félagsins verður breytt því FiiZk samstæðan rekur fleiri fyrirtæki undir FiiZK vörumerkinu í Noregi.
Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðunnar, segir:
„Það er mikill fengur að fá FiiZK Protection inn í samstæðu Hampiðjunnar og við lítum á þessi kaup sem mikilvægt skref í áframhaldandi þróun á þjónustu okkar við fiskeldisgeirann þar sem við erum nú þegar með mjög öfluga starfsemi tengda fiskeldi víða um heim, sérstaklega hér við N-Atlantshaf. Við getum nú boðið upp á enn breiðara vöruúrval og þjónustu við fiskeldisfyrirtæki og mun það styrkja stöðu Hampiðjunnar á þessum mikilvæga markaði enn frekar.
Við viljum þakka aðaleigendum FiiZK samstæðunnar, norsku fyrirtækjunum BEWI Invest og Nekkar fyrir góð og vönduð samskipti og uppbyggilegt söluferli þar sem gott tillit var tekið til hagsmuna beggja aðila.
Starfsmenn FiiZK Protection, sem hafa undanfarin ár byggt upp öfluga og vandaða framleiðslu á lúsapilsum í Valsneset, bjóðum við velkomna til Hampiðjunnar og hlökkum til að vinna áfram með þeim við að efla enn frekar starfsemina þar og í Þrándheimi á næstu árum.”