-4.2 C
Reykjavik
Fimmtudagur - 9. febrúar 2023
Auglýsing

Vantraust íslensks almennings á stjórnkerfinu, er talsvert meira en á öðrum Norðurlöndum

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Mikið vantraust íslensks almennings á stjórnkerfinu


Aðgerðir er varða aukið gagnsæi stjórnsýslunnar, hagsmunaskráning, samskipti við hagsmunaaðila, starfsval eftir opinber störf og vernd uppljóstrara eru á meðal tillagna starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.
Starfshópurinn sem skipaður var 5. janúar sl. hefur nú skilað skýrslu til forsætisráðherra. Skýrslan var kynnt í ríkisstjórn 4. september sl. og hyggst forsætisráðherra einnig kynna hana á Alþingi sem sett verður í næstu viku.
Um skýrsluna kemur m.a. þetta fram í inngangi hennar:
,, Íslendingar hafa farið sér hægar en nágrannaþjóðirnar í aðgerðum til að tryggja heilindi í opinberum störfum og hér á landi hefur minna tillit verið tekið til tilmæla og leiðbeininga alþjóðlegra stofnana um varnir gegn spillingu en æskilegt hefði verið.
Það er niðurstaða starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu að til að breyta þessu þurfi stjórnvöld að móta heildarstefnu um heilindi í stjórnmálum og stjórnsýslu og fylgja henni eftir með aðgerðaáætlun.
Starfshópurinn metur það svo að vantraust íslensks almennings á stjórnkerfinu, sem kannanir sýna að er talsvert meira en á öðrum Norðurlöndum, megi að hluta rekja til þess að ekki hefur verið hugað nægilega að slíkri stefnumótun. Stjórnvöld eru því vanbúin að bregðast við, taka og læra af gagnrýni. Einnig skortir nauðsynleg tæki og tól til að rýna fyrirfram ákvarðanir, framkomu og samskipti við almenning.

Vantraust á stjórnvöldum er þó að sjálfsögðu ekki einsdæmi á Íslandi heldur vandi sem við er að etja í mörgum lýðræðisríkjum samtímans. Slíkt vantraust skapar pólitískan óstöðugleika, dregur úr vilja og getu til að vinna að stöðugri endurnýjun lýðræðislegra kerfa og veldur sambandsleysi almennings og fulltrúa þeirra sem með völdin fara. Þó að félagslegt traust sé meira í íslensku samfélagi en víða annars staðar, og ekki nein merki þess að sjá að fjari undan samfélagslegum stöðugleika, er vantraust á stjórnvöldum vandi sem til lengri tíma getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Starfshópurinn telur að íslenskum stjórnvöldum sé ekkert að vanbúnaði að ráðast í aðgerðir sem fastlega má gera ráð fyrir að bæti tengsl almennings við stjórnmál og stjórnsýslu og séu því líklegar til að auka traust. Tillögur starfshópsins boða engin nýmæli um traustskapandi aðgerðir heldur byggja þær á fyrri umræðum á innlendum og erlendum vettvangi um traust og heilindi sem undistöðu góðrar stjórnsýslu og lýðræðislegra stjórnarhátta.
Í þessari skýrslu er byggt á starfi alþjóðlegra stofnana á borð við OECD og GRECO sem hafa um árabil unnið ötullega að ráðgjöf til stjórnvalda víða um heim. OECD heldur úti viðamiklu rannsóknarstarfi á stjórnsýslu, þar á meðal trausti og ástæðum trausts og vantrausts. Þessar rannsóknir sýna að framkoma og vinnubrögð stjórnvalda hafa afgerandi áhrif á viðhorf almennings til þeirra og ráða miklu um hvort traust fer vaxandi eða minnkar.
Rannsóknir fræðimanna sýna að sterk tengsl eru á milli trausts og ábyrgðar. Takist stjórnvöldum ekki að gefa almenningi til kynna að starfsemi stjórnkerfisins sé í höndum hæfs fólks, jafnt kjörinna fulltrúa sem starfsfólks stjórnsýslu, getur traust ekki skapast.
Á sama hátt grefur það undan góðum stjórnarháttum að ekki sé nægilega hugað að ásýnd stjórnmála og stjórnsýslu. Vantraust – verðskuldað eða ekki – dregur sjálft úr möguleikum stjórnvalda til að ná árangri. Þannig má sjá hvernig vítahringur vantrausts getur orðið til, en starfshópurinn notar þetta hugtak til að skýra lamandi áhrif vantrausts á stjórnvöldum á nokkrum stöðum í þessari skýrslu.
Tillögur hópsins skiptast í átta meginsvið og 25 einstakar tillögur. Sumar þessara tillagna krefjast breytinga á lögum, aðrar krefjast þess að stjórnvöld setji sérstakar reglur, en flestar varða þó aðgerðir sem þarfnast ekki annars en að vilji sé fyrir hendi til að framkvæma þær og forgangsraða í samræmi við þær.
Ein sýnilegasta breytingin á starfsháttum stjórnvalda varðandi siðferðileg álitamál kemur fram í þeirri tillögu hópsins að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands verði tímabundið falið sérstakt ráðgjafarhlutverk. Þetta er að mati hópsins mikilvægt skref til að innleiða þá starfshætti sem nauðsynlegir eru til að skapa grundvöll fyrir auknu trausti á stjórnmálum og stjórnsýslu. Um leið styður það við nauðsynlega eftirfylgni með þeim tillögum sem hér eru settar fram.“
Í skýrslunni er fjallað um þá þætti sem hafa áhrif á traust á stjórnmálum og stjórnsýslu og hvernig megi vinna markvisst að því að auka það. Leitað er fanga í vinnu alþjóðastofnana eins og Evrópuráðsins og OECD og jafnframt horft til þess sem er að gerast í nálægum löndum. Mælir starfshópurinn með því að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands verði fengið hlutverk við að aðstoða stjórnvöld við að útfæra og fylgja tillögunum eftir.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Ég er ánægð með hvað starfshópurinn skilar ítarlegri og ígrundaðri skýrslu á tilsettum tíma. Nú tekur við umræða á pólitískum vettvangi og í samfélaginu. Mér finnst gagnlegt að sjá þetta allt sett í samhengi og áþreifanlegar tillögur sem hægt er að setja í ferli. Og hafin er vinna við suma þætti, til dæmis endurskoðun reglna um hagsmunaskráningu og frumvarp til laga um vernd uppljóstrara. Þessi mál verða áfram í forgangi í forsætisráðuneytinu.“
Skýrsluna má nálgast hér.