Kosningabarátta Höllu Tómasdóttur forseta kostaði 26 milljónir króna. Þetta kemur fram í uppgjöri sem hún sendi Ríkisendurskoðun. Kostnaðurinn við framboð Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, var meira en tvöfalt meiri, rúmlega 57 milljónir króna, samkvæmt uppgjöri hennar.
Fjallað var ítarlega um málið á vef ríkisútvarpsins og þar kemur fram að frestur forsetaframbjóðenda til að skila inn upplýsingum um kostnað við framboð sitt hafi runnið út á mánudag. Búið er að yfirfara uppgjör fjögurra, Höllu, Katrínar, Jóns Gnarr og Ástþórs Magnússonar Wium.
57 milljóna barátta Katrínar
Kosningabarátta Katrínar kostaði rúmar 57 milljónir króna. Aðeins meira fé safnaðist til baráttunnar sem skilaði 277 þúsund króna afgangi.
Katrín fékk tæpar 42 milljónir króna í styrki frá einstaklingum og tæpar níu milljónir frá fyrirtækjum. Sjálf lagði hún til þrjár milljónir króna og aðrar tekjur framboðsins námu 4,5 milljónum.
Auglýsinga- og kynningarkostnaður nam rúmum 26 milljónum króna, rekstur kosningaskrifstofu kostaði tæplega tólf milljónir og kostnaður vegna funda og ferða nam tæpum níu milljónum. Annar kostnaður hljóðaði upp á tíu milljónir króna.
Halla fékk 22 milljónir í styrki
Kosningabarátta Höllu kostaði 26 milljónir króna. Fyrirtæki lögðu henni til tólf milljónir, einstaklingar tíu milljónir og sjálf lagði hún þrjár og hálfa milljón króna í baráttuna.
Megnið af styrkjunum sem Halla fékk voru í formi peninga. Hún fékk þó einnig annars konar framlög frá fyrirtækjum, 400 þúsund í afnot af húsnæði í eigu Eikar fasteignafélags og 178.200 krónur í formi afnota af bíl frá BL, sem er þó annað umboð en hún keypti bíl af í sumar.
Kosningabarátta Jóns Gnarr kostaði tæpar ellefu milljónir króna. Einstaklingar lögðu honum til átta og hálfa milljón og fyrirtæki tæpar tvær milljónir.
Helsti útgjaldaliður í kosningabaráttu Jóns var aðkeypt þjónusta upp á fjórar milljónir. Síðan komu vörukaup upp á tæpar tvær milljónir, annar rekstrarkostnaður upp á tæpar tvær milljónir og auglýsingar sem kostuðu eina og hálfa milljón króna. Skrifstofa og búnaður kostuðu samanlagt rétt rúmlega eina milljón.
Kostnaður Ástþórs við sína baráttu nam tæpum níu milljónum króna. Sjálfur lagði hann til tæpar átta milljónir, einstaklingar studdu hann með 370 þúsund krónum og aðrar tekjur voru tæpar 800 þúsund krónur.
Auglýsingar dýrasti liðurinn
Í yfirlitum Höllu og Ástþórs kemur fram að auglýsingar séu veigamesti útgjaldaþátturinn.
Tæpar nítján af 26 milljónum í kostnaði við framboð Höllu féll til vegna auglýsinga og kynninga. Rekstur skrifstofu kostaði rúmar þrjár milljónir og fundir og ferðir tæplega fjórar.
Ástþór varði rúmlega átta milljónum í auglýsingar en tæplega hálfri milljón í fundi og ferðakostnað.
Eiríkur Ingi Jóhannsson og Viktor Traustason skiluðu inn yfirlýsingu um að kostnaður væri undir 550 þúsund krónum. Við þær aðstæður þarf ekki að skila inn uppgjöri. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir hefur hvorki skilað inn uppgjöri né yfirlýsingu. Slíkt er ekki skylda nema kostnaður sé yfir 550 þúsund krónum.
Greint verður frá kostnaði annarra forsetaframbjóðenda eftir að upplýsingar um slíkt hafa birst á vef Ríkisendurskoðunar að söfn rúv.is