Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á lausasölulyfjum og ýmsum öðrum vörum sem seldar eru í apótekum, þriðjudaginn 2. nóvember. Verð var kannað í öllum apótekum á landinu eða 26 útibúum. Borgarapótek í Borgartúni var eina apótekið sem neitaði þátttöku í könnuninni.
Costco var oftast með lægsta verðið í könnuninni, á 53 vörum af þeim 149 sem könnunin náði til en Rimaapótek var næst oftast með lægsta verðið, í 11 tilvikum. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Lyfjabúrinu, í 39 tilvikum en Lyfja var næst oftast með hæsta verðið í 33 tilvikum.
Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði væri á bilinu 40-60% eða í 62 tilvikum af 149. Í 58 tilvikum var munurinn á bilinu 20-40%. Verðlagseftirlit ASÍ hvetur neytendur til að spyrja um samheitalyf, sem gætu verið á hagstæðara verði og athuga með afsláttakjör.
Costco og Lyfjaver með lægsta verðið en Lyfjabúrið og Lyfja með hæsta verðið
Með því að skoða meðalverð er auðveldara að átta sig á verði hjá þeim verslunum sem eru hvorki með hæsta verðið né það lægsta. Ef litið er til meðalverðs eða hversu hátt eða lágt verð á vörum í könnuninni var að jafnaði hjá söluaðilum má sjá að Costco var að meðaltali með lægsta verðið. Vöruúrvalið hjá Costco var einnig minnst en einungis 63 vörur voru til af 149 sem könnunin náði til. Taka skal fram að til að geta keypt lyf hjá Costco verður að greiða árlegt aðildargjald upp á 4.800 kr. Meðalverð á vörum í könnuninni var næst lægst hjá Lyfjaveri sem var með töluvert meira úrval en Costco eða 135 vörur af 149. Lyfjabúrið með hæsta meðalverðið en 115 vörur fengust þar og Lyfja var með næst hæsta meðalverðið. Í töflunum hér að neðan má sjá uppröðunina á söluaðilum eftir meðalverði og fjölda vara sem til var í hverri verslun.
Meðalverð í verðkönnun í Apótekum 2. nóvember 2021
Ef meðalverð er skoðað á 34 lausasölulyfjum sem voru til í öllum apótekum breytist röðunin aðeins eins og sjá má í þessari töflu
Sjá nánar um aðferðafræði við útreikning í lok fréttar.
2.266 kr. verðmunur augndropum og 4.227 kr. verðmunur á ofnæmistöflum
Í mörgum tilfellum var mikill munur á hæsta og lægsta verði á algengum lausasölulyfjum. Sem dæmi má nefna 40% eða 4.227 kr. verðmun á 100 stk. af Kestine ofnæmistöflum (20 mg). Lægst var verðið í Austurbæjarapóteki, 10.673 kr. en hæst 14.900 kr. hjá Apótekinu Mos. Þá var 190% eða 2.172 kr. munur á hæsta og lægsta verði af ofnæmislyfinu Clarityn (10 mg, 30 stk), 37% eða 799 kr. verðmunur á gigtarlyfinu Glucomed, 1.904 kr. verðmunur á Voltaren forte hlaupi og 659 kr. verðmunur á verkjalyfinu Ibuxin rapid.
Með því að smella á vöruheitin raðast verslanirnar eftir því hver er með hæsta og lægsta verðið á viðkomandi vöru.
Mikill verðmunur var á mörgum augnlyfjum en þar má nefna 115% eða 2.226 kr. mun á Zaditen augndropum (20 hylki). Hæst var verðið í Lyfju, 4.326 kr. en lægst í Costco, 1.970 kr. Sama má segja um verð á nefúðum en sem dæmi má nefna 40% eða 1.053 kr. verðmun á Livostin nefúða. Hæst var verðið í Lyfjabúrinu, 3.680 kr. en lægst hjá Costco, 2.627 kr.
73% verðmunur á litlum pakka af nikotín tyggjói
Spara má töluverðar fjárhæðir í nikotín innkaupum en 73% eða 686 kr. verðmunur var á Nicotinell Lakrids tyggigúmmíi, 4 mg – 24 stk. Hæst var verðið í Rimaapóteki 1.632 kr. en lægst í Farmasíu, 945 kr. Einnig var 67% verðmunur a á Nicotinell Fruit tyggigúmmí 2 mg (204 stk). Hæsta verðið var í Lyfsalanum Glæsibæ, 5.838 kr. en lægsta verðið í Farmasíu, 3.503 kr. Þá var 62% verðmunur á svefn- og kvíðalyfinu Sefitude þar sem hæsta verðið var í Farmasíu, 4.850 kr. en lægsta verðið í Costco, 2.985 kr. Verðmunurinn er 1.865 krónur.
4.221 kr. verðmunur á Benecta og 1.425 kr. verðmunur á lúsasjampói
Mikill munur var á hæsta og lægsta verði á ýmsum öðrum vörum sem seldar eru í apótekum eins og t.d. bætiefnum, vítamínum, sjampói og snyrtivörum. Sem dæmi má nefna 33% eða 1.577 kr. verðmun var á 60 hylkjum af fæðubótarefninu Benecta sem fékkst hjá öllum söluaðilum. Lægst var verðið í Costco, 4.783 kr. en hæst í Lyfsalanum Glæsibæ, 6.360 kr. Verðmunur á stærri pakkningu af Benecta með 240 hylkjum var 4.221 kr. eða 24%. Lægst var verðið í Costco, 17.504 kr. en hæst í Apóteki Suðurlands, 21.725 kr.
Einnig var 59% eða 1.328 kr. verðmunur á Optibac góðgerlum til að viðhalda góðu ónæmiskerfi (30 hylki). Lægst var verðið í Lyfjaveri, 2.262 kr. en hæst í Urðarapóteki, 3.590 kr. Þá var mikill verðmunur á bætiefninu Nutrilenk Gold (180 töflur), 43% eða 2.573 kr. og 57% eða 1.082 kr. verðmunur á fjölvítamíni frá “Ein á dag”.
Af öðrum vörum má nefna nauðsynjavöruna lúsasjampó en 72% eða 1.425 kr. verðmunur var á Elimax lúsasjampói sem var ódýrast hjá Apóteki Vesturlands, 1.990 kr. en dýrast hjá Lyfsalanum Glæsibæ, 3.415 kr. Þá má spara sér 913 kr. við kaup á John Frieda detox and repair sjampói með því að kaupa það þar sem verðið er lægst, 2.244 í Apóteki Garðabæjar í stað 3.033 kr. hjá Lyfjabúrinu.
Um könnunina
Ýmsar aðferðir eru til að varpa ljósi á niðurstöður í verðkönnunum með mörgum vörum og verslunum. Til að skýra betur verð hjá þeim verslunum sem eru hvorki oft með hæsta né lægsta verðið í verðkönnun og finna út meðalverð má reikna út hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru. Þannig raðast verslanirnar eftir því hversu langt þær eru frá þeirri verslun sem er með lægsta verðið.
Verð var kannað á 80 lausasölulyfjum og 67 öðrum vörum í apótekum. Verðkannanir verðlagseftirlits ASÍ gefa upplýsingar um verð á takmörkuðum fjölda lyfja og ekki er hægt að alhæfa um verðlag almennt út fá þeim. Þær gefa þó sterkar vísbendingar. Sum apótek í könnuninni eru hluti af stórum keðjum en önnur eru stakar rekstrareiningar. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Samanburðurinn var gerður í eftirtöldum apótekum: Apóteki Garðabæjar, Apóteki Hafnarfjarðar, Austurbæjar Apóteki, Costco Apóteki, Efstaleitis Apóteki, Farmasíu, Garðs Apóteki, Íslands Apóteki, Apótekaranum Akureyri, Lyf og heilsu Kringlunni, Lyfju Lágmúla, Lyfjabúrinu, Lyfjavali Mjódd, Lyfjaveri Suðurlandsbraut, Lyfsalanum Glæsibæ, Apótek MOS, Reykjavíkur Apóteki, Rima Apóteki, Urðarapóteki, Borgar Apóteki, Akureyrarapóteki, Siglufjarðar Apóteki, Apóteki Suðurlands, Apóteki Suðurnesja. Reykjanesapóteki og Apóteki Vesturlands.