„Ég held að kjósendur treysti ekki núverandi flokkakerfi“
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, vill að verkalýðshreyfingin bjóði fram til Alþingis og hyggst taka það upp á miðstjórnarfundi ASÍ.
Þetta kom fram í viðtali við Ragnar Þór á Rúv en þar segir hann t.d. að starfslokasamningur eins og sá sem gerður var við Harald Johannesen ríkislögreglustjóra hluta af því að ýtt sé undir réttindi ákveðinna hópa umfram aðra. Það sé angi af djúpri spillingu. Hann muni hætta störfum um áramót en verði á launum í tvö ár eftir það án þess að hafa nokkrar starfsskyldur. Þó getur dómsmálaráðherra kallað hann til ráðgjafastarfa.
Djúp spilling
Hann vísar í að aukið vantraust sé á milli Alþingis og þjóðarinnar. „Þetta er bara angi af þessari djúpu spillingu,“ segir Ragnar.
Hann segir stjórnmálaflokkar og ríkisstjórnir hafa svikið þau loforð sem hafi verið gefin og það skapi vantraustið. Þetta hafi gerst í öllum ríkisstjórnum frá hruni – loforð hafa verið sópuð út af borðinu. „Ég held að kjósendur treysti ekki núverandi flokkakerfi til að leysa þennan vanda og brúa þessa djúpu gjá. Ég hef talað um að verkalýðshreyfingin eigi að bjóða fram. Hún er sterk og hefur aflað sér mikils trausts.“
,,Eftir að ég steig fyrst fram með þessar hugmyndir hef ég fengið gríðarleg viðbrögð. Ég held ég hafi aldrei fengið eins mikil viðbrögð við neinu sem ég hef sett fram.“
Hefur þú áhuga á að hjálpa Fréttatímanum að vaxa og dafna?
Með því að styrkja Fréttatímann stuðlar þú að frjálsri og óháðri umfjöllun.
https://gamli.frettatiminn.is/2019/11/19/vill-lata-innkalla-kvotann/