Brottfarir erlendra farþega* frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 2,3 milljónir árið 2018 eða um 120.600 fleiri en árið 2017, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Aukning milli ára nemur 5,5%
Fjölgunin er minni en undanfarin ár en hún var á bilinu 24,1% til 40,1% milli ára á tímabilinu 2013-2017. Af einstaka markaðssvæðum voru brottfarir Norður-Ameríkana flestar eða um 794 þúsundir talsins og var mest fjölgun þaðan eða um 115 þúsundir.
Fjölgun var í brottförum erlendra farþega milli ára 2017 til 2018 alla mánuði ársins nema í apríl. Fjölgunin var hlutfallslega mest í maí og september eða um 13% en minnst í mars, júlí, ágúst, nóvember og desember eða á bilinu 1,5% til 3,7%.
Ferðamálastofa áréttar að fjöldi brottfara erlendra farþega gefur vísbendingu um þróun í komum ferðamanna til landsins. Til að álykta um breytingar á umsvifum í ferðaþjónustu þarf að líta til fleiri mælikvarða s.s. fjölda gistinótta og útgjalda ferðamanna.
Brottfarir á tímabilinu 2014-2018
Brottfarir erlendra farþega frá landinu mældust um 2,3 milljónir á nýliðnu ári eða 5,5% fleiri en árið 2017. Sé litið lengra aftur í tímann má sjá að brottfarir hafa ríflega tvöfaldast frá árinu 2014 en þá voru þær um 969 þúsund talsins. Á tímabilinu 2013 til 2018 hefur aukning milli ára verið að jafnaði 24,8%, mest frá 2015 til 2016 eða 40,1%.
Fjölmennustu þjóðernin
Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir árið 2018 tilkomnar vegna Bandaríkjamanna eða um 695 þúsundir talsins. Um er að ræða 20,5% fleiri brottfarir Bandaríkjamanna en árið 2017. Brottfarir Breta komu þar á eftir en þær mældust um 298 þúsundir árið 2018 og voru 24.600 færri en 2017. Samtals voru brottfarir Bandaríkjamanna og Breta 42,9% af heildarbrottförum.
Brottfarir Þjóðverja á árinu 2018 voru í þriðja sæti, um 139 þúsundir talsins (6,0% af heild) og fækkaði þeim um 10,7% milli ára. Brottfarir Kanadamanna voru í fjórða sæti, um 100 þúsundir talsins (4,3% af heild) og fækkaði þeim jafnframt eða um 3,2% milli ára, sem og brottförum Frakka sem voru 3,1% færri en árið áður en þeir voru 97 þúsund talsins árið 2018 (4,2% af heild).
Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Pólverja (3,9% af heild), Kínverja (3,9% af heild), Spánverja (2,8% af heild), Dana (2,2% af heild), Svía (2,1% af heild), Ítala (2,0% af heild) og Hollendinga (1,9% af heild).
Brottfarir eftir mánuðum
Aukning var í brottförum erlendra farþega milli ára 2017 til 2018 ellefu mánuði ársins eins og sjá má af töflunni hér að ofan. Brottförum fjölgaði yfir 10% tvo mánuði ársins 2018 eða í maí og september og á bilinu 5-10% fjóra mánuði eða í janúar, febrúar, júní og október. Fjölgunin milli ára 2017 til 2018 var innan við 5%, fimm mánuði ársins eða í mars, júlí, ágúst, nóvember og desember. Brottförum fækkaði einungis í aprílmánuði milli ára, voru 3,9% færri árið 2018 en 2017.
Tengt efni:
https://www.fti.is/2018/12/26/2018-mesta-godaerisar-a-islandi-og-enn-bjartara-framundan/