Stýrivextir verða áfram 9,25 prósent samkvæmt ákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.
Nefndin telur að áhrif peningastefnunnar komi æ skýrar fram. Raunvextir hafi hækkað og verðbólga hjaðnað nokkuð frá nóvemberfundi nefndarinnar. Þá hafi undirliggjandi verðbólga einnig minnkað.
Peningastefnunefndin telur að vísbendingar séu um að það dragi hraðar úr vexti efnahagsumsvifa en áður var talið. Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans fer spennan í þjóðarbúinu minnkandi og snýst í slaka undir lok ársins. Verðbólguhorfur hafa því batnað.
Langtímaverðbólguvæntingar hafi þó lítið breyst og haldist nokkuð yfir markmiði. „Þótt hægt hafi á vinnumarkaði er spenna þar enn til staðar. Verðbólga gæti því áfram reynst þrálát. Þá er einnig óvissa um niðurstöður kjarasamninga og mögulegar aðgerðir í ríkisfjármálum tengdar þeim og vegna jarðhræringa á Reykjanesi“.“
Mótun peningastefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.