Krufningaskýrsla varpar ljósi á dularfullt andlát
Eggert J. Jónsson bæjarfógeti og fyrrverandi bæjarstjóri var aðeins 43 ára þegar hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Keflavík. Fjölskylda Eggerts hefur í áratugi leitað svara um andlátið og hvernig það bar að og er fjallað um málið í sérstökum þáttum hjá ríkisútvarpinu.
Um miðjan júlí 1962 barst sú harmafregn hratt um íslenskt samfélag að Eggert J. Jónsson, bæjarfógeti í Keflavík, hefði verið bráðkvaddur að heimili sínu í Keflavík að viðstaddri fjölskyldu sinni. Lík Eggerts var flutt af heimilinu í miklum flýti og blóm úr dómsmálaráðuneytinu voru nánast samstundis send með áætlunarbíl til Keflavíkur svo votta mætti ekkju Eggerts og börnum samúð. Því næst var sleginn þagnarmúr um andlátið. Í nýjum þáttum á Rás 1 varpa feðginin Snærós Sindradóttir og Sindri Freysson ljósi á málið og opinbera gögn sem aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings.
Helsti réttarkrufningalæknir landsins Níels P. Dungal tók til við að kryfja lík bæjarfógetans degi síðar og skilaði í kjölfar afgerandi og óhuggulegri skýrslu um andlátið. Enginn átti von á því að sú skýrsla myndi daga uppi hjá bæjarfógetaembættinu, óséð af nánustu fjölskyldu, og að aldrei yrði gerð lögreglurannsókn vegna andlátsins.
Útvarpsþættirnir um andlátið og eftirmála þess, eru sjálfstætt framhald vinsælla útvarpsþátta um athafnamanninn Jósafat Arngrímsson sem frumfluttir voru um síðustu jól. Sögusvið beggja þátta er Keflavík á sjöunda áratug síðustu aldar og víðtæk spilling sem maraði yfir bænum, meðal annars vegna flókinna samskipta við varnarliðið í ört stækkandi bæjarfélagi.