Friðrik Ólafsson, stórmeistari í skák, er látinn, 90 ára að aldri. Hann lést á líknardeild Landspítalans 4. apríl. Morgunblaðið greinir frá þessu.
Friðrik fæddist í Reykjavík 26. janúar 1935. Foreldrar hans voru Sigríður Ágústa Dorothea Símonsdóttir húsmóðir og Ólafur Friðriksson skrifstofumaður.
Friðrik skaraði fram úr á sviði skáklistarinnar ungur að árum. 1952 varð hann Íslandsmeistari í skák 17 ára gamall. Hann varð Norðurlandameistari ári síðar og stórmeistari í skák árið 1958, fyrstur Íslendinga. Hann stóð uppi sem sigurvegari á fjölda alþjóðlegra skákmóta og Íslandsmeistaratitlarnir urðu alls sex talsins.
Á árunum 1978 til 1982 var Friðrik forseti Alþjóðaskáksambandsins (FIDE). Hann veitti Skákskóla Friðriks Ólafssonar forstöðu frá 1982 til 1984. Árið 1989 vann Friðrik að undirbúningi frumvarps til laga um Skákskóla Íslands og stórmeistaralaun í nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins.
Friðrik ritaði einnig um skák og gaf út þrjár bækur um efnið. Sú fyrsta kom út 1958, kennslubókin Lærið að tefla sem hann samdi ásamt Ingvari Ásmundssyni. Friðrik og Freysteinn Jóhannesson sendu frá sér bókina Heimsmeistaraeinvígið í skák 1972. Fjórum árum síðar leit bókin Við skákborðið í aldarfjórðung dagsins ljós. Friðrik ritaði auk þess fjölda greina um skák í tímarit og dagblöð.
Árið 1972 var Friðrik sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og stórriddarakrossi 1980. Á áttræðisafmælinu fyrir tíu árum var hann gerður að heiðursborgara Reykjavíkur fyrir afrek sín á skáksviðinu. Við sama tilefni var hann gerður að heiðursfélaga í FIDE.
Friðrik varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1955 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1968. Hann starfaði sem fulltrúi í dómsmálaráðuneytinu 1968 til 1974. Hann var skrifstofustjóri Alþingis í hátt í tvo áratugi, frá 1984 til 2005.
Eftirlifandi eiginkona Friðriks er Auður Júlíusdóttir. Dætur þeirra eru Bergljót og Áslaug.
90 ára afmælisár Friðriks Ólafssonar – Magnus Carlsen orðaður – Fréttatíminn