Meðfylgjandi er fréttatilkynning frá Hafnarfjarðarbæ: Ábyrg fjármálastjórn og traust fjárhagsstaða
- Rekstrarafgangur nam 1.236 milljónum króna fyrir A og B hluta bæjarsjóðs
- Skuldaviðmið hélst óbreytt 112% milli ára
- Veltufé frá rekstri var um 3,4 milljarðar króna eða 11,9% af heildartekjum
- Fjárfestingar á árinu námu 4,6 milljörðum króna
Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2019 var lagður fram í bæjarráði í dag. Þrátt fyrir umtalsverðar fjárfestingar og framkvæmdir við uppbyggingu innviða var rekstrarniðurstaðan jákvæð og yfir áætlunum. Afgangur af rekstri A og B hluta bæjarsjóðs nam 1.236 milljónum króna en áætlun með viðaukum gerði ráð fyrir 642 milljóna króna afgangi. A hluti bæjarsjóðs skilaði 426 milljóna króna afgangi en áætlun gerði ráð fyrir halla upp á 45 milljónir króna. Mismun á áætlun og niðurstöðu má meðal annars rekja til þess að gjaldfærsla lífeyrissjóðsskuldbindinga var 392 milljónum króna lægri en gert hafði verið ráð fyrir, auk þess sem fjármagnsliðir voru 245 milljónum króna lægri vegna lægri verðbótaþáttar. Skatttekjur voru hins vegar 94 milljónum króna lægri en áætlun gerði ráð fyrir og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga voru 46 milljónum undir áætlun. Veltufé frá rekstri nam 3.396 milljónum króna eða 11,9% af heildartekjum.
„Við höfum stigið varfærin og ábyrg skref í rekstri sveitarfélagsins. Niðurstöður ársreiknings 2019 eru í takti við áætlanir okkar og samræmist markmiðum um ábyrga fjármálastjórn og vel ígrundaðar ákvarðanir“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Aðgerðaáætlun vegna Covid19 var samþykkt einróma í bæjarstjórn í byrjun apríl. „Ég er sannfærð um að traustur rekstur síðustu ára og samstaða og einhugur stjórnenda og starfsfólks muni koma sveitarfélaginu í gegnum þær þrengingar sem Covid19 faraldurinn hefur í för með sér. Áhersla verður lögð á innspýtingu fjármagns á þeim stöðum sem koma hjólum atvinnulífs og efnahags á skrið að nýju. Þannig hyggjumst við flýta framkvæmdum og endurbótum, forgangsraða verkefnum út frá breyttum forsendum og fjölga atvinnuúrræðum. Augljóslega eru forsendur fjárhagsáætlunar 2020 brostnar að miklu leyti og ljóst að áætlanir munu taka miklum breytingum á komandi vikum og mánuðum. Útsvarstekjur munu skerðast , gjalddagar færast til og útgjöld aukast. Þetta verður stórt viðfangsefni sem mun hafa umtalsverð áhrif á rekstur bæjarfélagsins. En við höfum bæði burði og getu til að lágmarka neikvæð áhrif á þjónustu við íbúa og uppbyggingu innviða.”
Fjárfestingar og uppbygging
Fjárfestingar á árinu 2019 námu 4.557 milljónum króna. Meðal helstu framkvæmda voru áframhaldandi uppbygging nýs skóla í Skarðshlíð sem lýkur haustið 2020 fyrir 1.258 milljónir króna, bygging hjúkrunarheimilis fyrir 855 milljónir króna og framkvæmdir vegna íþróttamannvirkja að Ásvöllum, Kaplakrika og við Keili fyrir alls um 656 milljónir króna. Framkvæmdir við grunn- og leikskóla námu um 167 milljónum króna og endurbætur á St. Jósefsspítala um 85 milljónum króna. Þá nam kaupverð íbúða Húsnæðisskrifstofu um 243 milljónum króna. Framkvæmdir við gatnagerð og hafnarmannvirki kostuðu 1.010 milljónir króna en tekjur vegna gatnagerðagjalda og byggingaréttar námu um 740 milljónum króna.
Óbreytt skuldaviðmið
Afborganir langtímaskulda námu alls um 1,5 milljörðum króna á síðastliðnu ári. Tekin voru ný lán á árinu fyrir 1,1 milljarð króna. Auk þess voru tekin lán á grundvelli leigusamnings við ríkissjóð að andvirði 600 milljónir króna og 495 milljónir króna vegna fjármögnunar fjárfestinga Húsnæðisskrifstofu á leiguíbúðum. Skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar var 112% í árslok 2019, en það hélst óbreytt milli ára og er vel undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 45.300 milljónum króna og hækkuðu um 2.109 milljónir króna á milli ára. Heildareignir í lok árs námu samtals 59.536 milljón króna og jukust um 3.566 milljónir milli ára
Ársreikning Hafnarfjarðarbæjar má nálgast hér: https://www.hafnarfjordur.is/stjornsysla/baerinn-i-tolum/arsreikningar/
Einkavæðing orkufyrirtækis í boði meirihlutans í Hafnarfirði
https://gamli.frettatiminn.is/einkavaeding-orkufyrirtaekis-i-bodi-meirihlutans-i-hafnarfirdi/