Ríkissaksóknari Namibíu, Martha Imalwa, og yfirmaður namibísku spillingarlögreglunnar, Erna Van Der Merwe, eru staddar hér á landi og funda meðal annars með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Ólafi Þór Haukssyni saksóknara um Samherjamálið að því er fram kemur hjá Stundinni.
Stundin greinir frá þessu í dag og segir jafnframt frá því að rannsakendur á vegum beggja landa hafi fundað frá morgni til kvölds sín á milli í Haag í Hollandi í síðustu viku. Þá fundaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra með Netumbo Nandi-Ndaitwah utanríkisráðherra Namibíu, sem jafnframt er varaforsætisráðherra landsins. Samkvæmt svörum forsætisráðherra við fyrirspurn Stundarinnar var meðal annars rætt um mögulegt framsal á íslenskum einstaklingum, sem tengjast málinu, til Namibíu.
Namibíski utanríkisráðherrann fundaði einnig með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra að sögn Stundarinnar. Málefni Samherja í Namibíu hafa verið til rannsóknar þar í landi sem og hérlendis frá því að greint var frá, í sameiginlegri umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks, meintum greiðslum Samherja til stjórnmálamanna og annarra áhrifamanna í Namibíu tengdum kvótaviðskiptum Samherja við namibíska ríkið.
https://gamli.frettatiminn.is/07/06/2022/spillingalogregla-og-radherra-raeda-samherjamalid/
https://gamli.frettatiminn.is/21/05/2021/samherji-sagdir-vilja-hraeda-johannes-stefansson-svo-hann-beri-ekki-vitni-i-namibiu/