Þann 21. mars árið 2003 birtist tilkynning á vef Þórbergsseturs um að stofnuð hefði verið sjálfseignastofnun um rekstur Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit. Stofnaðilar væru heimamenn á Hala og Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Fyrstu verkefni Þórbergsseturs voru svo kynnt í kjölfarið og undirritaður var samstarfssamningur við 10 rannsóknar- og menningarstofnanir um uppbyggingu setursins. Á málþingi var ákveðið að Menningarmiðstöð Hornafjarðar setti upp sýningu á munum úr eigu Þórbergs sem varðveittir eru á safninu.
Fréttatíminn skoðaði safnið og það er óhætt að segja að mjög vel hafi tekist til við þá miklu vinnu sem hefur verið lögð í þetta vandaða safn allt frá upphafi og til dagsins í dag.
Hægt er að fá gistingu á staðnum hjá ferðaþjónustufyrirtæki sem er á staðnum, bæði herbergi og íbúðir og sú þjónusta er öll upp á tíu, mjög snyrtileg og vel hugsað um gestina af natni og miklum metnaði.
Þá er veitingastaðurinn hreint út sagt frábær, þar er lögð áhersla á mat ,,beint frá býli“ og varla getur það verið ferskara og betra og gestrisnin, hvort sem um er að ræða ferðaþjónustuna eða safnið er einstaklega vinsamleg og innileg eins og hún gerist best og Þorbjörg og Fjölnir eigendur eiga mikið hrós skilið fyrir og þeirra starfsfólk. Það er alla vega öruggt að þeir sem koma einu sinni og heimsækja staðinn og fólkið, langar að koma aftur, og það munum við sannarlega gera. Frábær upplifun fyrir einstaklinga og fjölskyldur.
Þórbergssetur
Safnið er mjög vel gert og áhugavert í alla staði og þegar út var komið, kom í ljós að 70 myndir höfðu verið teknar, en blaðamaður reyndi að gæta hófs í myndatökum. Þórbergssetur er bara þannig staður að gott er að gefa sér góðan tíma til að sökkva sér niður í allt sem er í boði á staðnum. Í lýsingu á safninu segir:
Sýning um Þórberg Þórðarson rithöfund
,,Þórbergssetur er menningarsetur þar sem sett hefur verið upp sýning um Þórberg Þórðarson rithöfund. Hann fæddist og ólst upp á Hala í Suðursveit (1888 – 1974) og fjallaði mikið um sveitina sína Suðursveit náttúru og mannlíf í verkum sínum. Þórbergssetur er aðeins 12 km austar en Jökulsárlón sem að er einn fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi.
Segja má að Þórbergssetur sé eitt af nútíma söfnum eða setrum á Íslandi þar sem áhersla er lögð á að kynna sögu staðarins og staðbundna þekkingu heimamanna á umhverfi og náttúru. Bókaveggurinn sem blasir við á norðurhlið hússins er tákn um þann menningararf sem við Íslendingar eigum dýrastan, sem eru bókmenntir og sagnahefð.
Sýningin innan dyra sem er hönnuð af Jóni Þórissyni leikmyndahönnuði er einstök skemmtun og upplifun með ólíkum leikmyndum og textum Þórbergs. Gestirnir fara í í söguferð til fortíðar með Þórbergi Þórðarsyni sem hefur hlotið þann sess að vera einn af merkustu rithöfundum 20. aldarinnar á Íslandi. Þórbergur er talinn hafa hvað mesta þekkingu samtímamanna sinna á orðaforða og stílbrigðum íslensks máls og búa yfir undraverðri færni í ritun á íslenska tungu.
Suðursveit var lengst af einangruð sveit eða allt til ársins 1960
Sveitirnar sunnan Vatnajökuls voru einangraðar frá umheiminum með óbrúaðar jökulár beggja vegna, með ólgandi brimöldur Atlantshafsins í suðrinu og voldugan Vatnajökul i bakgarðinum. Fólkið lifði að mestu leyti á sjálfsþurftarbúskap og sjósókn frá hafnlausri strönd .
Allar samgöngur voru erfiðar allt til ársins 1961 er Hornafjarðarfljót í austri var brúað og síðan Jökulsá á Breiðamerkursandi árið 1967 og að lokum opnaðist hringvegurinn 1974 þegar Skeiðará og árnar á Skeiðarársandi voru brúaðar. Eftir 1974 hófst hinn raunverulegi ferðamannastraumur um Skaftafellssýslur og hefur vaxið ár frá ári síðan.“
Fyrir ofan Hala er minnisvarði um bræðurna frá Hala, Þórberg Þórðarson rithöfund, Steinþór Þórðarson bónda á Hala og Benedikt Þórðarson bónda á Kálfafelli. Út frá minnisvarðanum hafa verið merktar tvær gönguleiðir í austur og vesturátt.
Gönguleiðirnar eru settar upp sem ratleikir undir heitinu, Söguferðir í Suðursveit, þar sem lítil skilti með sögum úr verkum Þórbergs og tilvitnunum í sögur Steinþórs, bróður hans, varða leiðirnar. Hægt er að fara þessar gönguleiðir á eigin vegum, en einnig er hægt að hafa leiðsögumann frá Þórbergssetri með í för ef óskað er.
,,Suðursveit er ævintýraland sem fleiri mættu gefa gaum að en hingað til.” segir Hjörleifur Guttormsson í grein sinni, Heillandi Suðursveitarfjöll
Söguferð með Þórbergi er merkt gönguleið frá skógræktargirðingunni í Staðarfjalli að barmi Klukkugils. Á þeirri leið eru átta söguskilti sem segja m.a. gamlar munnmælasögur af pöpum og búsetu þeirra. Á Steinadal fannst fyrir nokkru merkar fornminjar frá landnámstíð, og líklegt er að þar sé fundið hið forna Papbýli sem getið er um á fyrstu síðum Landnámabókar. Um þennan merka fornleifafund er einnig hægt að lesa á Þórbergsvefnum. Sérstök sýning um þennan fornleifafund er í Þórbergssetri.
Hægt er að panta gönguferðir með leiðsögn í Þórbergssetri um allt þetta svæði þ.e. Staðarfjall og Steinadal þar sem sögð er sagan af Papbýli hinu forna en einnig sagan af landnytjum og smalaferðum bænda í Suðursveit um fjalllendið allt frá innstu leitum í Hvannadal upp í efstu eggjar Steinadals.
Menningarsetur reist til minningar um Þórberg Þórðarson rithöfund. – Þórbergssetur er opið frá kl. 9:00 – 20:00 alla daga. Vinsamlega bókið fyrir hópa í síma 867 2900 eða á hali@hali.is
Beint frá býli og skemmtileg sveitastemmning. Veitingahúsið er opið allt árið. Sérstök dagskrá fyrir hópa ef óskað er. Vinsamlega pantið í síma 478 1078/ 867 2900 eða á hali@hali.is.
Allir velkomnir í Þórbergssetur
Stutt æviágrip um Þórberg Þórðarson
Torfi Steinþórsson skrifar:
Þórbergur Þórðarson var fæddur að Hala í Suðursveit 12. mars 1888. Foreldrar Þórbergs voru þau hjónin á Hala Anna Benediktsdóttir og Þórður Steinsson. Hjá foreldrum sínum ólst Þórbergur upp og vandist þar öllum algengum sveitastörfum sem hann vann af mikilli trúmennsku en litlum áhuga nema þá helst að bjarga kindum úr Breiðabólsstaðarklettum og róa á sjó til fiskjar. Á þeim árum var mikið af frönskum fiskiskútum á miðunum undan Steinafjall þegar líða tók á vetur. Þetta voru glæsileg skip að sjá úr fjarlægð og þessar glæsilegu duggur seiddu rauðhærða strákinn á Hala út á hafið.
Hann fór sextán ára gamall til Reykjavíkur, komst þar á skútu og var þar í þrjú ár. Sjálfur segir Þórbergur um skútudvöl sína: ,, Ég kom öreigi á skútu og fór þaðan beiningamaður.“ Árin liðu, en árið 1924 marka tímamót ekki aðeins í lífi Þórbergs heldur miklu fremur í íslenskum bókmenntum. Þá kom út fyrsta alvörubók Þórbergs, Bréf til Láru. Líklega hefur engin íslensk bók valdið öðru eins umróti í heimi íslenskra bókmennta sem sú bók. Árið 1938 kom út bókin Íslenskur aðall og skömmu síðar Ofvitinn, bók í tveimur bindum. Þetta er ævisaga Þórbergs frá árunum 1909 – 1913, þ.e. frá tímanum þegar hann fór af skútunni og þar til hann kom fyrst í Unuhús, hús skáldanna. Þó eru þessar bækur mikið meira en ævisaga Þórbergs, fjöldi annarra manna kemur þar við sögu.
Í kringum 1940 liggja saman leiðir Þórbergs og uppgjafaprests á níræðisaldri vestan af Snæfellsnesi, séra Árna Þórarinssonar. Af þessum kynnum komst í letur ævisaga séra Árna Þórarinssonar í sex bindum, ævisaga sem varð alveg einstæð í íslenskum bókmenntum og mun tæplega eiga sinn líka í heimsbókmenntunum. Árni sagði söguna, en Þórbergur skráði. Samspil þessara tveggja sagnamanna varð með slíkum ágætum að ekki er hægt að ímynda sér það betra. Fimmti áratugurinn var því tímabil séra Árna í lífi Þórbergs. Og svo lifði Þórbergur sig inn í hlutverkið með séra Árna að þegar þeir skiljast að skiptum þá er Þórbergur orðinn gamall maður í útliti og hefur jafnvel tamið sér göngulag séra Árna.
En svo kom lítill stúlka, sem leysti Þórberg úr viðjum gamlingjans og leiddi hann inn í veröld barnsins. Það gekk ekki þrautalaust þegar Þórbergur byrjaði upp úr 1950 að skrifa söguna af henni Lillu Heggu. Margar tilraunir gerði Þórbergur til að ná hinum rétta tón í frásögnina. En loksins tókst það eftir að Þórbergur hafði skriðið slefandi um gólfið eins og ómálga barn, Sálmurinn um blómið varð að sögu fyrir börn á öllum aldri.
Þegar Þórbergur hafði lokið við Sálminn um blómið fór hugur hans að snúast heim á gömlu æskustöðvarnar í Suðursveit. Árið 1956 kom út bókin Steinarnir tala. Sú bók upphefst með hinni forkostlegu brúðkaupsveislu á Breiðabólsstað. Næstu árin kom svo áframhald af sögnum úr Suðusveit í þremur bindum. Eftir það var Suðursveit draumasveitin hans Þórbergs, því hann lifði sig alltaf af lífi og sál inn í það verk, sem hann vann að hverju sinni. Þórbergur hefur gert Suðursveit eina sögufrægustu sveit landsins.