Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og þyrluáhafnir stofnunarinnar höfðu í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt. Skipstjóri á skemmtiferðaskipi óskaði eftir aðstoð vegna tveggja farþega. Annar glímdi við alvarleg veikindi og þurfti nauðsynlega að komast á sjúkrahús en hinn var slasaður. Áhöfnin á TF-GRO flaug frá Reykjavík til Akureyrar í gærkvöld en skipið var beðið um að halda í átt að Eyjafirði.
Á tólfta tímanum í gærkvöld var tilkynnt um alvarlegt umferðarslys í Hnífsdal. TF-LIF hélt frá Reykjavík á miðnætti og með í för var sjúkraflutningamaður frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Ákveðið var einn hinna slösuðu úr umferðarslysinu færi með sjúkraflugvél Mýflugs til Reykjavíkur. Þyrlulæknirinn og sjúkraflutningamaðurinn veittu aðstoð á sjúkrahúsinu á Ísafirði og fóru svo með sjúkraflugvélinni til höfuðborgarinnar.
TF-LIF flaug því næst frá Ísafirði til Akureyrar og lenti þar laust fyrir klukkan fjögur í nótt til þess að vera til taks fyrir áhöfnina á TF-GRO sem fór til móts við skemmtiferðaskipið á sjötta tímanum í morgun.
Klukkan 6:30, þegar skemmtiferðaskipið var um 60 sjómílur norður af Sauðanesi, hófust hífingar um borð í þyrluna. Þær gengu vel og í kjölfarið var fyllt á eldsneytistanka þyrlunnar á Akureyri áður en flogið var til Reykjavíkur.
Gró lenti á Landspítalanum í Fossvogi á ellefta tímanum í morgun en áhöfnin á TF-LIF er enn á Akureyri.