Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur birt landskýrslu fyrir Ísland um niðurstöður TALIS-rannsóknarinnar 2024. Niðurstöðurnar sýna mikla starfsánægju meðal kennara á Íslandi að launum undanskildum en draga fram mikilvægi þess að skapa aðstæður til að halda kennurum í starfi og bæta gæði kennaramenntunar og starfsþróunar.
TALIS er stærsta alþjóðlega rannsókn á kennurum, skólastjórnendum og kennsluháttum og voru niðurstöður rannsóknarinnar birtar af Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) í dag. Ísland hefur tekið þátt í rannsókninni frá upphafi eða frá 2008 en hún er nú lögð fram á sex ára fresti. Gagnaöflun á Íslandi átti sér stað frá mars til maí í fyrra, 2024.
Fimm lykilniðurstöður fyrir Ísland úr landsskýrslu eru:
- Starfsánægja er lykilatriði: Kennarar með háa starfsánægju eru 80% ólíklegri til þess að ætla að hverfa úr starfi á næstu fimm árum. Stefnumótun verður að forgangsraða aðstæðum sem byggja upp og viðhalda starfsánægju kennara.
- Varðandi starfsánægju er hlutfall kennara sem segjast vera ánægðir með störf sín 94% (OECD: 89%). Þetta hlutfall hefur ekki breyst síðan 2018. Um 21% kennara segjast upplifa „mjög mikla“ streitu í starfi (OECD: 19%); 5% segja að starf þeirra hafi „mjög mikil“ neikvæð áhrif á andlega heilsu þeirra (meðaltal OECD: 10%) og 5% segja að það hafi „mjög mikil“ neikvæð áhrif á líkamlega heilsu þeirra (OECD: 8%). Milli áranna 2018 og 2024 lækkaði hlutfall kennara sem upplifa „mjög mikla“ streitu í starfi um 5 prósentustig.
- Hveitibrauðsdaga-vandinn: Ánægja með laun og starfsaðstæður er greinilega hærri meðal nýrra kennara en dalar hratt með reynslu. Þetta bendir til þess að halda þurfi kennurum í starfi eftir fyrstu fimm árin, ekki bara laða þá að starfinu.
- Áhrifamunur í starfsþróun: Mikil þátttaka í starfsþróun skilar ekki sjálfkrafa árangri. Stefnumótun þarf að leggja áherslu á gæði fremur en magn í starfsþróun.
- Vannýtt kennslufræðileg forysta: Mikið sjálfræði skólastjóra er ekki að fullu nýtt til kennslufræðilegrar leiðsagnar. Tækifæri er til að byggja á sterku trausti innan kennarahópsins og umbreyta því í kerfisbundnar umbætur.
- Ósamræmi menntunar og kennslu: Verulegur hluti kennara kennir námsgreinar sem ekki voru hluti af kennaramenntun þeirra. Þetta er áhyggjuefni sem þarfnast athygli, sérstaklega í ljósi þess að nýir kennarar segja að kennaramenntun undirbúi þá verr en áður.
Um TALIS
TALIS rannsóknin sem OECD stendur fyrir er alþjóðleg spurningalistarannsókn meðal kennara og skólastjórnenda um starfsaðstæður kennara, kennsluhætti, og námsumhverfi. Markmið TALIS er að bæta menntakerfi og -stefnur með því að veita innsýn í kennsluhætti fjölmargra landa/landsvæða og menntakerfa.
Árið 2024 tóku 56 lönd/svæði þátt í að minnsta kosti einum hluta TALIS. Kjarnakönnunin á unglingastigi grunnskóla (ISCED 2) náði til 55 þátttökuaðila.
TALIS veitir alþjóðlegar samanburðarhæfar upplýsingar fyrir stefnumótun beint frá kennurum og skólastjórnendum um störf þeirra, námsumhverfi og starfsþróun. TALIS veitir mikilvægan grundvöll fyrir stefnumótandi aðila, rekstraraðila skóla, kennaramenntunarstofnanir og fleiri aðila til að ræða og skipuleggja menntakerfi með traustum og samanburðarhæfum upplýsingum.
Leiðir fram á við
Ein af megináskorunum sem íslenskt menntakerfi hefur verið að takast á við undanfarin ár varðar málefni kennara, þ.m.t. kennaraskortur. Áherslur undanfarinna ára á að fjölga útskrifuðum kennurum hafa borið ákveðinn árangur í nýliðun. Samhliða áframhaldandi áherslu á fjölgun kennara þarf að beina sjónum einnig að því að gera kennarastarfið sjálfbært og aðlaðandi í gegnum allan starfsferilinn.
Þetta kallar m.a. á:
- endurskoðun launakerfis til að tryggja betri launaþróun yfir starfsferilinn
- markvissari starfsþróun sem sniðin er að skilgreindum þörfum og þar sem áhrif eru metin kerfisbundið
- styrkingu kennslufræðilegrar forystu sem nýtir mikið sjálfræði og traust til umbóta í kennsluháttum
- skýrari tengsl milli kennaramenntunar og raunverulegra þarfa innan skólastofunnar
- aukna samfélagslega virðingu fyrir kennarastarfinuÍ lok hvers kafla landsskýrslunnar er tilgreint hvað niðurstöðurnar þýða fyrir 1. Kennara, 2. Skólastjórnendur og 3. Stefnumótendur. Næstu skref eru að kynna rannsóknina fyrir skólasamfélaginu, sveitarfélögum og stjórnvöldum og eiga samtal og samráð um leiðir til markvissrar nýtingar niðurstaðna til umbóta. Með því að takast á við þessar áskoranir getur Ísland byggt sjálfbært og öflugt menntakerfi sem þjónar nemendum enn betur til framtíðar.
Útgefið efni
Útgáfa OECD
- Alþjóðlega skýrslan í heild sinni (Results from TALIS 2024: The State of Teaching)
- Túlkun á niðurstöðum (á ensku) (Insights and Interpretations) – væntanlegt
- Landsyfirlit um Ísland (á ensku og íslensku) (Partipant note) – væntanlegt
- Gagnvirk tölfræði (Power BI) (Statistical compendia)