Smábátafélagið Hrollaugur á Höfn lýsir sig algerlega mótfallin fyrirhugaðri kvótasetningu á grásleppu
Hér kemur umsögn Hrollaugs sem við sendum inn vegna frumvarps um fyrirhugaða kvótasetningu á grásleppu. Umsögn smábátafélagsins Hrollaugs á Hornafirði vegna Máls nr 173/2020. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða o.fl. (veiðistjórn grásleppu o.fl.)).

Það er með öllu óskiljanleg sú aðför sjávarútvegsráðherra að smábátútgerð, frelsi og tækifærum í landinu sem hann virðist vera í. Kvótasetning á grásleppu er ekkert annað en aðför að almannahagsmunum og tækifærum núverandi og komandi kynslóða við nýtingu eigin auðlinda sem sjávarútvegsauðlindin er.
Aðför að nýliðun og auðlindaþjófnaður svo ekki sé meira sagt. Sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram þetta frumvarp um kvótasetningu á grásleppu þrátt fyrir að smábátasjómenn hafi hafnað kvótasetningu árið 2019 í samkonar aðför og sjávarútvegsráðherra var í gegn almannahagsmunum þá.
Það eru ekki almannahagsmunir að kvótasetja grásleppu heldur sérhagsmunir ætlaðir örfáum aðilum. Sagan segir okkur að samþjöppunin hefst frá firsta degi og tækifærum fyrir byggðir og einstaklinga á Íslandi mun fækka gríðarlega og aðgengi sjávarbyggða og íbúa þess að nýtingu auðlinda sinna hverfur skref fyrir skref.

Örfáir aðilar munu njóta ávinningsins en heildin ekki. Á Grænlandi er veiðunum stýrt með svæðisbundnum pottum svo að eitt eða tvö svæði klári ekki upp heildarpottinn á vertíðinni til þess jú að koma í veg fyrir það sem gerðist hér á Íslandi á síðustu vertíð núna í vor þegar sjávarútvegsráðherra stöðvaði veiðar án þess að allir kæmust til veiða sem það vildu vegna mikillar veiði á sumum svæðum. Þannig er vel hægt að stýra veiðunum hér á Íslandi. Við þekkjum sögu kvótasetningar, hún rústar heilu byggðarlögunum á einu bretti. Einkavæðing á grásleppu er ekki til gagns fyrir land og þjóð, það sér hver einasti sem vill sjá hvað er hér á ferðinni.
Þetta frumvarp er aðför að mannréttindum,frelsi og tækifærum núverandi og komandi kynslóða, byggðarlögum og nýtingarrétti þjóðarinnar á sínum eigin auðlindum og náðarhögg fyrir smærri útgerðarstaði. Það eru almannahagsmunir að kerfið verði mjög svipað og það er og eina breytingin sem þarf að gera á kerfinu er að svæðiskipta heildaraflamagni af grásleppu á milli landsvæða þannig að hvert svæði fái visst magn til sín og þar á að sjálfsögðu að miða við fjölda báta innan hvers svæðis á hverju ári.
Með því er komið í veg fyrir að það sem gerðist í vor endurtaki sig þar sem eitt eða tvö svæði kláruðu allan heildarkvótan og allir hefðu sömu tækifæri. Tryggt yrði aðgengi þjóðarinnar að grásleppuveiðum framtíðarinnar, frelsi og tækifæri fyrir nýliðun og síðast en ekki síst mannréttindi þjóðarinnar að fá að nýta sér sjávarútvegsauðlind sína (Lífsbjörgina) til þess að skapa sér hér lífsviðurværi þar sem þau búa. Grásleppa er auðlind þjóðarinnar og hana verður að nýta almannahag til heilla eins og allar aðrar auðlindir þjóðarinnar. Saga kvótasetningar á grásleppu verður ekkert öðrvísi en saga kvótasetningar á öðrum tegundum.
Samþjöppun hefst frá fyrsta degi, útgerðum og tækifærum fækkar stórkostlega og þar með atvinnu þegar auðlindin verður komin í hendur örfárra aðila á Íslandi á örfáum stöðum á landinu. Aðgengi og tækifæri við nýtingu a okkar eigin auðlindum eru sjálfsögð mannréttindi hér á landi . Þjóðin eru ekki kálfar á fóðrum hjá ríkinu, þjóðin á íslenska ríkið og þingmenn og ráðherrar eru í vinnu hjá þjóðini sem þjónar hennar en ekki örfárra sérhagsmunaaðilum í kringum landið sem svo oft virðist vera.
Ellefta boðorðið gæti verið svona og stjórnvöld í hverju landi ættu að fara eftir því. „Þú skalt ekki ræna þjóð auðlindum sínum.
Fyrir hönd smábátafélagsins Hrollaugs á Höfn. Vigfús Ásbjörnsson Formaður