Fjárfestum í fólki, var slagorð Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar 2021
Sagðist flokkurinn vilja skoða hvort tilefni væri til aukins einkareksturs innan heilbrigðisgeirans, skila sem bestum og skjótustum árangri, ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir vanda síðar og síðast en ekki síst tryggja öllum íbúum landsins þjónustu óháð búsetu og efnahag.
Eftir kosningar kom það í hlut framsóknarflokksins að annast heilbrigðismálin og í stól ráðherra settist Willum Þór Þórsson sem hafði gegnt formennsku í fjárlaganefnd, svo staða heilbrigðiskerfisins átti að vera honum kunnug. Tvisvar sinnum á ári fær fjárlaganefnd innlit inn í heilbrigðiskerfið við yfirferð sína um fjárlög og fjármálaáætlun og fær því býsna góða yfirsýn yfir það hvar skóinn kreppir og hvar hægt er að efla þjónustu og jafnframt hagræða.
Nú þegar framsóknarflokkurinn hefur annast málaflokkinn í rúmt ár fáum við engar fregnir af áætlunum ráðherra en hins vegar stöðugar fregnir af uppsögnum lykilstarfsfólks af Landspítala. Sex af níu sérfræðilæknum á bráðamóttöku hafa sagt upp störfum og tugir hjúkrunarfræðinga flúðu óboðlegar starfsaðstæður. Reyndur sérfræðilæknir sem afhenti uppsagnarbréf sitt um áramót greindi svo frá að margítrekað ákall til stjórnvalda um auknar fjárveitingar og aðgerðir hefði engu skilað.
Nánasti ráðgjafi heilbrigðisráðherra svaraði heilbrigðisstarfsfólkinu brottflúna og þeim sem enn þrauka í störfum sínum með því að Landspítalinn væri vel fjármagnaður. Sagði hann þurfa að forgangsraða í störfum innan spítalans en viðurkenndi reyndar að það sem mætti einnig nefna væri að verkefni spítalans væru of mörg!
Á síðasta kjörtímabili hóf Velferðarnefnd Alþingis, undir minni formennsku, vetrarþing 2020 á að kortleggja heilbrigðiskerfið til að kanna hvar væri hægt að bæta flæði og verkefnastjórn. Niðurstaða þeirrar vinnu var að víða mætti dreifa verkefnum betur en til þess þyrftu stjórnvöld að veita auknu fjármagni til annarra heilbrigðisstofnana landsins sem ekki væru nýttar til fulls. Við það að fjármagn á heilbrigðisstofnanir um land minnkar þá skerðist þjónustan sem lendir á Landspítala.
Landspítalinn er því í dag allt í senn þjóðarsjúkrahús, háskólasjúkrahús, bráðasjúkrahús, héraðssjúkrahús og annast öldrunarþjónustu. Mun betur færi á því að fækka verkefnum þar og fela þau öðrum, en ráðherrann hefur ekki kynnt neinar fyrirætlanir í þá veru heldur sendir sinn helsta ráðgjafa út í fjölmiðla til að mótmæla brottflúnu og yfirkeyrðu starfsfólki sem reynir eftir fremsta megni að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Engin skilaboð eru um einhverja framtíðarsýn, engin skilaboð til fólks um að það sé betra í vændum.
Var kannski ekki best að kjósa framsókn?