,,Vinnumálastofnun sinnir „skrifborðseftirliti” – rýnir í pappíra – en guð forði þeim frá því að taka sér bíltúr yfir Fossvoginn og ræða við sjálft starfsfólkið.“
Helgi Seljan og fjölmiðlafólk sem að stýrir fréttaskýringarþættinum Kveik á RÚV flettu ofan af meintri illri meðferð ýmissa aðila á starfsfólki, eins og t.d. hjá nokkrum fyrirtækjum í ferðaþjónustu og starfsmannaleigum á Íslandi. Hann furðar sig á því að það hafi tekið heila fjóra mánuði, frá því að Kveikur fjallaði ítarlega um málin, þangað til að eitthvað hafi verið aðhafst af hálfu Vinnumálastofnunnar. Hann segir það jafnframt alrangt sem forstjóri Vinnumálastofnunar hélt fram, um að frumkvæðið að aðgerðunum nú, væri vegna vinnu stofnunarinnar.
,,Það er út af fyrir sig guðsþakkarvert að fréttastofa Stöðvar 2 skuli hafa fengist til að fara sjálf á staðinn og kynna sér starfsemi starfsmannaleigunnar Manna í vinnu í Hjallabrekku í Kópavogi, fjórum mánuðum eftir að bent var á að þar byggi fjöldi rúmenskra verkamanna í ólöglegu húsnæði sem þeir greiddu fyrir háa leigu, á meðan þeir fengju smánarlaun sem síðan væru helminguð með alls kyns frádrætti. Þegar sagt var frá þessu í Kveik í október gerði sama fréttastofa lítið annað en að birta athugasemdalaust augljósar rangfærslur og staðleysur starfsmannaleigunnar.“
,,Það er jákvætt að nú hafi fréttastofan sjálf farið og rætt við viðkomandi menn.
Að sama skapi hlýtur það að teljast ósvífið ef ekki hreinlega bíræfið að sjá forstjóra Vinnumálastofnunar hreykja sér af aðgerðum gegn starfsmannaleigunni í sama fréttatíma en staðfesta í leiðinni hve illa stofnunin sinnir lagaskyldu sinni um eftirlit með starfsmannaleigum.
Það er alrangt sem forstjórinn hélt fram að frumkvæðið að aðgerðunum nú væri vegna vinnu stofnunarinnar. Gögnin sem Vinnumálastofnun hafði til grundvallar í dag voru færð henni upp í hendur af fjölmiðli, sem ólíkt stofnuninni gaf sér tíma til að setjast niður og ræða við starfsmennina sjálfa.
Og kinnroðalaust býður forstjórinn upp á þá skýringu að aðgerðarleysi stofnunarinnar til þessa sé vegna þess að starfsmannaleigan hafi passað sig á því að fylla út rétta pappíra og haka í rétt box.
Óekki. Upplýsingar um aðstæður mannanna í Kópavogi; ólöglegt húsnæði, himinháan frádrátt af launum þeirra og kvartanir þeirra undan því að ekki væri gert rétt upp við þá, komu allar fram í haust og hefðu blasað við stofnuninni mun fyrr hefði hún haft minnsta áhuga á að rétta hlut mannanna sem þarna eru og hafa verið. Meðal annars þeirra þriggja sem stigu fram í Kveik og fengu að launum brottrekstur og hafa enn ekki fengið það uppgert sem þeir telja sig eiga inni hjá fyrirtækinu.
En í staðinn sinnir Vinnumálastofnun „skrifborðseftirliti” – rýnir í pappíra – en guð forði þeim frá því að taka sér bíltúr yfir Fossvoginn og ræða við sjálft starfsfólkið.“ Segir Helgi Seljan í færslu sinni um málefnið.