-2.2 C
Reykjavik
Sunnudagur - 26. mars 2023
Auglýsing

Tekjur karla hærri en tekjur kvenna með sömu menntun

Auglýsingspot_img
Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Árið 2017 voru meðalatvinnutekjur kvenna með háskólamenntun tæp 72% af meðalatvinnutekjum karla með sömu menntun, eða 6,7 milljónir króna yfir árið samanborið við 9,3 milljónir króna.
Meðalatvinnutekjur kvenna með menntun á framhaldsskóla- og viðbótarstigi voru tæp 65% af meðalatvinnutekjum karla, eða 4,1 milljón króna en tekjur karla voru 6,4 milljónir króna. Þá voru meðalatvinnutekjur kvenna sem voru eingöngu með grunnmenntun 3,2 milljónir króna, 69% af tekjum karla með þá menntun sem voru 4,7 milljónir króna.
Rúmur helmingur kvenna 25-64 ára var með háskólamenntun árið 2018, samanborið við rúmlega þriðjung karla á sama aldri. Um 27% kvenna og 41% karla var með starfs- og framhaldsmenntun og rúmlega 20% kvenna og 24% karla voru eingöngu með grunnmenntun.
Meðalatvinnutekjur eftir menntun 2017Skýring: Launatekjur og aðrar starfstengdar tekjur þeirra sem hafa einhverjar atvinnutekjur á viðkomandi ári.
Atvinnuþátttaka kvenna var tæp 78% árið 2018, þátttaka karla var rúm 85%. Óleiðréttur launamunur kynjanna var rúm 15% árið 2017 en tæp 14% ef aðeins launafólk í fullu starfi er skoðað. Konur eru nú 38% alþingismanna og 47% kjörinna sveitarstjórnarmanna en í mörgum öðrum áhrifastöðum er hlutur kvenna lægri. Í byrjun árs 2019 voru konur 36% í stöðu framkvæmdastjóra sveitarfélaga og tæp 42% forstöðumanna ríkisstofnana.
Hlutfall kvenna af framkvæmdastjórum fyrirtækja var 22% árið 2017, 24% meðal stjórnarformanna og 26% stjórnarmanna. Af átta hæstaréttardómurum var ein kona en konur voru 38% héraðsdómara sem eru alls 42 og tæp 47% dómara í Landsrétti sem skipaður var 15 dómurum í árslok 2018.
Áhrifastöður
Hagstofa Íslands gefur út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi 2019 í samstarfi við Jafnréttisstofu og forsætisráðuneytið. Þar eru teknar saman upplýsingar sem gefa vísbendingar um stöðu kvenna og karla í samfélaginu. Einnig eru myndrit um mannfjölda, fjölmiðla, menntun, vinnumarkað, laun og tekjur og áhrifastöður. Bæklingurinn er gefinn út á hverju ári bæði á íslensku og ensku.
Einnig hafa lykiltölur um konur og karla verið uppfærðar. Þar er þó aðeins stiklað á stóru úr víðtækum kyngreindum gögnum Hagstofunnar, sem nálgast má á vef stofnunarinnar.
Konur og karlar á Íslandi 2019 – bæklingur
Talnaefni