Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, ÍSOR, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, auk fulltrúa frá Orkuveitu Reykjavíkur, Embætti landlæknis, Isavia-ANS og HS-Orku. Á fundinum var farið yfir virkni helgarinnar, ásamt því að rýna mælingar og gögn sem hafa borist síðasta sólarhringinn.
Helstu niðurstöður fundarins
- Áfram er talið að ef til goss kemur yrði það á sprungu einhversstaðar á því svæði sem afmarkast af Fagradalsfjalli og Keili þar sem kvikugangurinn er að myndast. Engar vísbendingar eru um kvikuhreyfingar fyrir utan þetta svæði.
- Líklegasti uppkomustaður kviku, miðað við virkni undanfarna daga, er syðst í kvikuganginum.
- Nýjustu gervihnattamyndir, GPS mælingar og líkanreikningar benda til þess að dregið hafi úr kvikuflæði frá því í upphafi síðustu viku. Kvikan situr grunnt og áfram þarf að gera ráð fyrir að gos geti brotist út.
- Ef kvikugangurinn heldur áfram að stækka næstu daga og vikur, má eiga von á sambærilegum jarðskjálftahviðum og urðu um helgina.
Á fundi vísindaráðs í dag var farið yfir nýjar gervihnattamyndir sem bárust í gær og þær bornar saman við GPS mælingar, skjálftagögn og aðrar mælingar. Jarðskjálftavirkni hefur heldur minnkað frá því sem var um helgina. Á laugardagskvöld jókst jarðskjálftavirkni í Fagradalsfjalli umtalsvert og stóð sú aukna virkni yfir frá um kl 18 – 23. Rétt eftir miðnætti, aðfaranótt sunnudags, hófst órói sem stóð yfir í um 20 mínútur og skömmu seinna mældist skjálfti af stærð 3,8. Í framhaldi af því jókst virkni enn frekar og margir kröftugir skjálftar mældust. Sá stærsti mældist kl. 02:02 og var 5,1 að stærð.
Áfram er talið að ef til goss kemur yrði það á sprungu einhversstaðar á því svæði sem afmarkast af Fagradalsfjalli og Keili þar sem kvikugangurinn er að myndast. Engar vísbendingar eru um kvikuhreyfingar fyrir utan þetta svæði. Líklegasti uppkomustaður kviku, miðað við virkni undanfarna daga, er syðst í kvikuganginum. Nýjustu gervihnattamyndir, GPS mælingar og líkanreikningar benda til þess að dregið hafi úr kvikuflæði frá því í upphafi síðustu viku. Kvikan situr grunnt, nær líklega á um 1km dýpi og áfram þarf að gera ráð fyrir að gos geti brotist út.
Áhrif kvikugangsins á önnur svæði á Reykjanesskaga
Þegar kvika flæðir inn í jarðlög og myndar kvikugang, líkt og nú á sér stað á svæðinu milli Keilis og Fagradalsfjalls, myndast þrýstingur í jarðskorpunni. Það veldur spennubreytingum á stóru svæði umhverfis ganginn. Líkanreikningar sýna að þessar spennubreytingar koma af stað svokölluðum „gikkskjálftum“ við sinn hvorn enda kvikugangsins. Þessir skjálftar eru merki um spennulosun, en tákna ekki að kvika sé á hreyfingu á þeim svæðum sem þeir mælast.
Það er mat vísindaráðs að búast megi við því að virknin á Reykjanesskaga verði kaflaskipt næstu daga. Gera þarf ráð fyrir því að ef kvikugangurinn heldur áfram að myndast næstu daga og vikur þá er von á sambærilegum jarðskjálftahviðum og urðu um helgina.
Á þessari mynd er afmarkað svæði þar sem kvikugangurinn er að myndast undir jarðskorpunni. Þegar kvika flæðir inn í jarðlög og myndar kvikugang, líkt og nú á sér stað á umbrotasvæðinu milli Keilis og Fagradalsfjall, myndast þrýstingu í jarðskorpunni. Það skapar spennu austan og vestan megin við umbrotasvæðið og er líkleg skýring á þeim skjálftum sem verða þar sú að um sé að ræða svokallaða „gikkskjálfta“ sem eru merki um spennulosun en tákna ekki að kvika sé á hreyfingu á þeim svæðum sem þeir mælast. Dæmi um slíka skjálfta mátti sjá aðfaranótt sunnudags, 7. mars, þegar margir kröftugir skjálftar mældust á skömmum tíma.
Áfram eru þessar sviðsmyndir líklegastar:
- Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
- Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall
- Skjálfti af stærða allt að 6.5 verður sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
- Kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall:
- Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
- Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð